Umhverfismat

Tilgangur umhverfismats á áætlunar­stigi er að stuðla að því að tekið sé tillit til sjálfbærrar þróunar við stefnumótun og áætlanagerð, sbr. lög um umhverfismat framkvæmda og áætlana nr. 111/2021.

8.1 Um umhverfismatið

Tilgangur umhverfismats á áætlunar­stigi er að stuðla að því að tekið sé tillit til sjálfbærrar þróunar við stefnumótun og áætlanagerð, sbr. lög um umhverfismat framkvæmda og áætlana nr. 111/2021.

Umhverfismat tillögu að Svæðis­skipulagi Austurlands 2022-2044 er sett fram í fylgiskjali með áætluninni en hér er nálgun við matið lýst og niðurstaða dregin fram.

8.2 Nálgun við umhverfismatið

Umhverfisviðmið

Umhverfisáhrif tillögu að svæðis­skipulagi voru metin m.t.t. umhverfis­þátta sem tilgreindir eru í lögum um umhverfismat framkvæmda og áætlana. Umhverfis­þættirnir samsvara skilgreiningu á umhverfi í lögunum en þar er því lýst sem „samheiti fyrir samfélag, heilbrigði manna, dýr, plöntur,
líffræðilega fjölbreytni, jarðveg, jarðmyndanir, vatn, loft, veðurfar, eignir, menningar­arfleifð, þ.m.t. byggingar­sögulegar og fornleifafræðilegar minjar, og landslag og samspil þessara þátta.“

Fyrir hvern umhverfisþátt voru tilgreind umhverfisviðmið. Með hugtakinu umhverfisviðmið er átt við þau markmið sem stefnumið áætlunar eru borin saman við, til að geta tekið afstöðu til þess hvort viðkomandi stefnumið sé talið hafa jákvæð, óveruleg, neikvæð eða óviss áhrif á umhverfisþáttinn.

Til að meta hvort svæðisskipulags­tillagan stuðlar að sjálfbærri þróun voru Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna notuð sem umhverfisviðmið. Höfð var hliðsjón af nálgun í umhverfismati tillögu að viðauka við Landsskipulagsstefnu 2015-2026.1

Þá voru markmið Landsskipulags­stefnunnar og tillögur að viðauka við hana einnig hafðar til hliðsjónar við matið, þar sem skipulags­áætlunum sveitarfélaga er ætlað að framfylgja henni. Líkt og í umhverfis­mati tillögu að Landsskipulags­stefnu voru einnig notuð viðmið sem byggja á Landslagssamningi Evrópu (ELS).

Heimsmarkmiðin, sem hvert hafa sitt númer og lit, voru flokkuð undir þrjú svið sjálfbærrar þróunar;  umhverfi, efnahag og samfélag og menningu.
Einungis voru tilgreind þau Heimsmarkmið sem voru talin eiga við svæðis­skipulagsstillöguna:

Matsspurningar

Í töflum í umhverfismatsskýrslunni sjálfri, sem er í fylgiskjali, eru tilgreind þau undirmarkmið hvers Heimsmarkmiðs sem talin eru eiga við svæðis­skipulagstillöguna. Einnig er þar gátlisti yfir umhverfis­þætti sem Heims­markmiðið snertir.

Skilgreindar voru matsspurningar úr frá:

  • Heimsmarkmiðunum (HM).
  • Markmiðum Landsskipulagsstefnu 2015-2026 (LSK).
  • Markmiðum í tillögu að viðauka við Landsskipulagsstefnuna (VLSK).
  • Markmiðum í Landslagssamningi Evrópu (ELS).

Í skýringum við matið er vísað í við­eigandi viðmið með skamm­stöfununum HM, LSK, VLSK og ELS.
Mat á samræmi við umhverfisviðmið
Í umhverfismatsskýrslunni eru dregin fram þau markmið svæðisskipulags­tillögunnar sem talin eru varða
viðkomandi Heims­markmið og vera í samræmi við umhverfisviðmið þess.

Vísað í númer viðeigandi markmiða svæðisskipulagstillögunnar en þau eru samsett úr einum bókstaf og einum tölustaf.

Eftirfarandi tákn eru notuð til að lýsa hvort svæðisskipulagstillagan í heild
sinni telst í samræmi eða ósamræmi við viðkomandi Heimsmarkmið:

++  Tillagan er metin í samræmi við viðmið fyrir viðkomandi Heimsmarkmið og ekki voru greind frávik.

+  Tillagan er metin í samræmi við viðmið fyrir viðkomandi Heimsmarkmið en með frávikum.

–  Tillagan er metin í ósamræmi við viðmið fyrir viðkomandi Heimsmarkmið, með frávikum.

—  Tillagan er metin í ósamræmi við viðmið fyrir viðkomandi Heimsmarkmið, án frávika.

?  Erfitt er að segja til um samræmi þar sem það er háð útfærslu á síðari áætlunar-/skipulagsstigum eða annarri óvissu.

8.3 Niðurstaða umhverfismats

Svæðisskipulagstillagan var í öllum aðal­atriðum metin í samræmi við umhverfis­viðmið. Tillagan er því talin hafa jákvæð áhrif á umhverfi, efnahag
og samfélag. Greind voru nokkur atriði þar sem tillagan er ekki í fullu samræmi við tiltekin viðmið eða ekki tekið á öllum þáttum sem viðmiðið nær til. Það á við um eftirfarandi:

  • Stefna um fjölkjarnasamfélag og mögulega nýja íbúðar- og þjónustu­kjarna í dreifbýli er í nokkru í ósamræmi við viðmið LSK 2.1 um að beina vexti að þeim kjörnum sem fyrir eru og viðmið LSK 3.1 um skilgreiningu meginkjarna í hverjum landshluta. Í skýringum við stefnu um byggðar­mynstur í svæðisskipulags­tillögunni segir: Í landsskipulags­stefnu er lögð áhersla á að styrkja samfélög með því að beina vexti að þeim kjörnum sem fyrir eru og skilgreina megin­kjarna í hverjum landshluta. Tilgangurinn er að nýta innviði sem best og stuðla að því að til verði vinnusóknar- og þjónustu­svæði sem geta staðið undir fjölbreyttri þjón­ustu.2 Á Austurlandi er ekki talið æskilegt að leggja höfuð­áherslu á einn kjarna umfram aðra þar sem á svæðinu eru margir rótgrónir byggðakjarnar, langt á milli sumra þeirra og torfært á vetrum. Því er lögð áhersla á að styrkja alla kjarna með einum eða öðrum hætti og bæta samgöngur á milli þeirra. Sérstaklega verður lögð áhersla á að bæta grunn­þjónustu í nærsamfélagi3 og vinna að því að unnt verði að aka að stærstu þéttbýlis­kjörnunum á innan við 60 mínútum, allan ársins hring.
  • Markmið B.2 miðar að fullnægjandi tengingu Austurlandskerfisins við meginflutningskerfi Íslands en ekki er tekin afstaða til legu flutningsmannvirkja og því óvíst um áhrif á náttúru og umhverfi (LSK 2.5).
  • Stefna um loftslagsmál er til þess fallin að styðja við aðgerðir gegn súrnun sjávar (HM 14.3) en ekki er beint fjallað um það vandamál.
  • Ekki eru settar fram beinar aðgerðir gegn landnámi og áhrifum ágengra framandi tegunda á vistkerfi á landi og í vatni (HM 15.8).
  • 1 Tillaga að viðauka við Landsskipulagsstefnu 2015-2026 (febrúar 2021).
  • 2 Landsskipulagsstefna 2015–2026.
  • 3 Sbr. Byggðaáætlun 2018-2024.