5.1 Samvinna og fjölbreytni

Austurland verður opið og víðsýnt samfélag þar sem fjölmenning mun blómstra. Áfram verður lögð áhersla á samvinnu á milli sveitarfélaga og samráð innan þeirra. Íbúum á Austurlandi mun fjölga og jafnvægi verður náð í aldurssamsetningu og kynjaskiptingu samfélagsins.

P.  Stefna um samvinnu sveitarfélaga og samfélagsins

P.1 Sterk samvinna einkenni áfram allt starf sveitarfélaga á Austurlandi.

Svæðisskipulagi verði framfylgt með markvissum hætti. Sjá 7. kafla um framfylgd.

P.2 Virkt samráð við íbúa og aðra hagsmunaaðila einkenni starf sveitarfélaganna og stofnana þeirra.

Leitað verði sjónarmiða og lið­sinnis íbúa og hagsmunaaðila við stefnumótun og þróun verkefna á sviðum umhverfis-, atvinnu-, samfélags- og menningarmála.

Hvatt verði til samvinnu fyrirtækja og stofnana um verkefni sem styrkja umhverfi, atvinnulíf og/eða samfélag landshlutans.

Skýringar við stefnu um samvinnu sveitarfélaga og samfélagsins

Sveitarfélög á Austurlandi hafa lengi haft með sér mikið samstarf, bæði á vettvangi Sambands sveitarfélaga á Austurlandi (SSA) og á milli einstakra sveitarfélaga. SSA hefur forgöngu um samgöngu-, atvinnu- og byggðaþróunarverkefni í landshlutanum og berst fyrir auknum jöfnuði meðal byggða landsins.1

Árið 2012 var sjálfseignarstofnunin Austurbrú sett á fót, en hlutverk hennar er að veita þverfaglega þjónustu á sviði símenntunar og rannsókna, atvinnu­þróunar og markaðssetningar. Stofn­un­in er sú fyrsta sinnar tegundar á Íslandi og voru stofnaðilar öll sveitar­félögin á Austurlandi, allir háskólar lands­ins, helstu fagstofnanir, stéttarfélög og hagsmunasamtök atvinnulífsins, framhalds­skólar og þekkingarsetur á Austurlandi.2

Undir hatti Austurbrúar er unnið að fjölmörgum verkefnum fyrir hönd SSA, þ.m.t. stefnumótunarverkefnum eins og sóknaráætlun, áfangastaðaáætlun og nú svæðisskipulagi. Til að hrinda slíkum áætlunum í framkvæmd þarf að virkja íbúa, stofnanir, fyrirtæki og aðila á öllum sviðum samfélagsins. Frumkvæði sveitar­félaganna og hvatning til  slíkrar samvinnu skiptir miklu máli til að ná þeim árangri sem áætlanirnar lýsa.

Á Austurlandi er einnig rík hefð fyrir starfsemi frjálsra félagasamtaka á ýmsum sviðum sem gegna mikilvægu samfélagslegu hlutverki og sem sveitar­félögin eiga í árangursríku samstarfi við, ekki síst um tómstundir barna og ungmenna. Þá eru dæmi um beina aðkomu frjálsra félagasamtaka að ýmsum verkefnum sem snúa að félaga­starfsemi ýmis konar og samvinnu sveitar­félaga við þau um þróun og upp­byggingu í landshlutanum.

R.  Stefna um fjölbreytni og fjölmenningu

R.1 Íbúum fjölgi og jafnvægi náist í aldurssamsetningu og kynjaskiptingu mannfjöldans á Austurlandi.

Leitað verði leiða til að laða að ungt fólk til starfa og búsetu um allan landshlutann.

Leitað verði leiða til að þróa atvinnulíf og búsetukosti um allan landshlutann sem höfða til allra kynja.

R.2 Fjölmenning blómstri á Austurlandi.

Unnin verði áætlun sem miðar að því að styðja við, virkja og nýta mannauð ólíkra samfélagshópa, sérstaklega þeirra sem eru af erlendum uppruna.

Tryggt verði að allir njóti sömu tækifæra til þátttöku í samfélagi sem snýr t.a.m. að lýðræði og atvinnuþátttöku. Í þeim tilgangi verði t.d. gott aðgengi að upplýs­ingum á nokkrum tungumálum.

Tryggt verði aðgengi að vandaðri íslenskukennslu.

Skýringar við stefnu um fjölbreytni og fjölmenningu

Samfélag er samsett af fólki af ólíkum aldurs-, kynja- og félagshópum og ólíkum uppruna. Við byggðaþróun Austurlands þarf að huga að mis­munandi þörfum þessara hópa og einnig stuðla að því að hver og einn fái notið sín sem best.

Íbúum á Austurlandi fjölgaði um rúmlega 1.400 frá árinu 2001 til ársins 2021.3 Fjölgunin hefur þó ekki dreifst jafnt yfir landshlutann og standa jaðarbyggðir margar höllum fæti hvað varðar íbúaþróun, kynjahlutfall og aldurs­samsetningu. Þá hefur íbúavelta verið mikil í einstaka byggðakjörnum sem getur bitnað á uppbyggingu mannauðs.4 Meðalaldur íbúa fer hækkandi og oft vantar ákveðið aldursbil inn í mann­fjöldapíramída þegar unga fólkið fer burtu til náms og starfa annars staðar.5

Fólki af erlendum uppruna hefur fjölgað á Austurlandi á síðustu árum og er það nú um fimmtán prósent íbúa.6 Í sumum þéttbýliskjörnum landshlutans er þetta hlutfall þó mun hærra, t.d. hátt í tuttugu prósent á Eskifirði og Reyðarfirði. Þessi hópur er ekki einsleitur m.t.t.
mennt­unar, reynslu, menningar, tungu­máls eða upprunalands. Því má segja að Austurland sé að þróast í átt að fjölmenningarsamfélagi og felast í því bæði áskoranir og tækifæri.7 Auðvelda þarf nýjum íbúum að læra á nýjar heima­slóðir og  skapa þarf tæki­færi fyrir samskipti og farveg fyrir nýjar hugmyndir sem nýtast Austurlandi.

  • 1 Tilgangur SSA.
  • 2 Um Austurbrú.
  • 3 Hagstofa Íslands: Mannfjöldi eftir landshlutum 1. janúar 2021.
  • 4 Sóknaráætlun Austurlands 2015-2019. Stöðugreining Austurlands 2019.
  • 5 Kynning á stöðu Sóknaráætlunar Austurlands 2020-2024.
  • 6 Ársskýrsla Austurbrúar 2019.
  • 7 Ársskýrsla Austurbrúar 2019.