4.2 Matvæli

Á Austurlandi verður stutt við framleiðslu matvæla á svæðinu, þekking efld, fullvinnsla hráefna aukin og aðgengi að austfirskum mat bætt. Leiðarljósið er sjálfbærni, verðmætasköpun og lágmark sóunar innan matvælakerfisins. Þannig eflum við gæði og ímynd austfirskra matvæla og tryggjum áframhaldandi samkeppnishæfni
Austurlands sem svæði matvælaframleiðslu.

Í.  Stefna um framleiðslu matvæla og verðmætasköpun

Í.1 Ræktun og öflun hráefna til matvælaframleiðslu ein­kennist af virðingu fyrir auðlindum, sjálfbærri og ábyrgri nýtingu þeirra.

Nýting hráefna úr sjó, vatni og af landi byggist á þekkingu um viðkom­andi vistkerfi og virku eftirliti með ástandi þess.

Í.2 Fiskeldi og öflun hefðbundinna og nýrra hráefna úr sjó styrki matvælaframleiðslu Austurlands og hliðargreinar hennar.

Stuðlað verði að rannsóknum á möguleikum til nýtingar nýrra tegunda til manneldis.

Fiskeldi verði bundið við firði sem eru í byggð og atvinnustarfsemi fer þegar fram í. Eyðifirðir verði lokaðir fyrir fiskeldi og sérstaða ósnortinnar náttúru varðveitt.

Hvatt verði til  lífræns fiskeldis með tilheyrandi vottun og að notuð sé besta tækni til að sporna við neikvæðum áhrifum fiskeldis á lífríki.

Áhersla verði lögð á að rannsóknir, vöktun. Ábyrg stjórnun og skilvirkt eftirlit einkenni fiskeldi á Austfjörðum til að tryggja gæði afurða og koma í veg fyrir neikvæð áhrif á lífríki.

Kapp verði lagt á að störfum við við framleiðslu, vinnslu, eftirlit og rannsóknir verði sinnt í lands­hlutanum þannig að virðisauki framleiðslunnar verði til á Austurlandi.

Unnið verði að því að sveitarfélög fái hlutdeild í gjaldtöku hins opinbera af fiskeldi.

Strandsvæðisskipulagi og aðalskipulagi verði beitt til að samræma landnotkun og hagsmuni á mörkum lands og strandsvæða.

Í.3 Stuðlað verði að ræktun búfjár og matjurta af miklum gæðum til aukinnar fullvinnslu.

Hvatt verði til  lífrænnar landbúnaðarframleiðslu og tilheyrandi vottunar.

Kannaðir verði möguleikar á að finna jarðvarma sem hægt væri að nýta til matvælaframleiðslu.

Hvatt verði til að beita tækni við að auka framleiðni í landbúnaði á sjálfbæran hátt.

Frumframleiðendur matvæla á Austurlandi.23

Í.4 Úrvinnsla og fullvinnsla hráefna aukist sem og verðmætasköpun.

Hvatt verði til samstarfs um vöruþróun og nýsköpun í matvælaframleiðslu á milli

  • menntastofnana og matvæla­framleiðenda
  • framleiðenda mismunandi matvæla
  • matvælaframleiðenda og fyrirtækja í öðrum greinum

sem miðar að meiri nýsköpun, samlegðaráhrifum og samkeppnis­hæfni.

Stuðlað verði að aukinni sérstöðu austfirskra matvæla  með áherslu á hollustu, ferskleika og einfaldleika, ásamt því að draga fram breytileika eftir árstíðum.

Í. 5 Matarúrgangur minnki og nýtist í auknum mæli sem hrá­efni í nýja vöru.

Hvatt verði til minni matarsóunar við framleiðslu, vinnslu og neyslu matar með vitundarvakningu og fræðslu.

Unnið verði að því að bæta möguleika til jarðgerðar úr matarúrgangi.

Hvatt verði til þróunar orkufram­leiðslu úr úrgangi sem til fellur við framleiðslu, vinnslu og neyslu matar.

Greindir verði aðrir nýtingamöguleikar úrgangs sem til verður í matvælakerfinu.

Hringrásarkerfi matvæla.

Skýringar við stefnu um framleiðslu matvæla og verðmætasköpun

Framtíðarþróun og matvæla­stefna Íslands

Á alþjóðavísu mun eftirspurn eftir matvælum aukast og breytast þar sem mannfólki fjölgar og neysluhegðun breytist. Finna þarf nýjar og betri leiðir til að tryggja fæðuöryggi, auka framleiðni og draga úr neikvæðum áhrifum matvælaframleiðslu.

Íslensk stjórnvöld birtu árið 2020 matvælastefnu fyrir Ísland, sem er liður í því að tryggja fæðuöryggi á Íslandi og styrkja matvælaframleiðslu í landinu öllu. Horft er til nokkurra lykilþátta í þeirri stefnumótun: Verðmæta­sköpunar, neytenda, ásýndar og öryggis, umhverfis og lýðheilsu. Markmiðið er að styrkja samkeppnishæfni íslenskra fyrirtækja með sjálfbæra nýtingu auð­linda og nýsköpun að leiðarljósi. Markmið svæðisskipulagsins taka mið af þessum þáttum.

Matvælaframleiðsla á Austurlandi

Á Austurlandi er matvælaframleiðsla úr hráefnum af landi og úr sjó kjölfesta í atvinnulífinu. Sjávarútvegur hefur alla tíð verið efnahagslegur burðarás byggðanna og í seinni tíð hefur fiskeldi verið að byggjast upp á Austfjörðum, en sjóeldiskvíar eru jafnan utan netlaga og því á yfirráðasvæði ríkisins. Engu að síður hefur fiskeldi, eða getur haft, bein atvinnutengd áhrif með fjölgun starfa, þ.á.m. tæknistarfa sem krefjast háskólamenntunar í eldis- og framleiðslu­stjórnun en einnig afleiddra starfa t.a.m. flutningsaðila, verktaka, í hafnarstarf­semi og netagerð. Þær tekjur sem sveitar­félög hafa af fiskeldi eru hafnartengd gjöld, fasteignagjöld og útsvarstekjur.

Unnið er að strandsvæðisskipulagi24 á Austfjörðum um framtíðarnýtingu og vernd strandsvæðis frá staðar­mörkum sveitarfélaga25 að viðmiðunar­línu sem skilgreind er í lögum um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands. Skipulags­áætlunin er mótuð af ráðherraskipuðu svæðisráði sem í eiga sæti fulltrúar ríkis­ins og sveitarfélaga.26

Fjarðabyggð, þar sem stór hluti fiskeldis landshlutans er,  hefur sett stefnu um fiskeldi þar sem lögð er áhersla á að eldið verði sjálfbært, burðarþolsmat fjarða ákvarði umfang fiskeldis á hverjum stað og regluverk og skilvirkt eftirlit haldi í lágmarki hugsanlegum neikvæðum áhrifum. Einnig er farið fram á að eyðifirðir verðir lokaðir fyrir fiskeldi og sérstaða ósnortinnar náttúru varðveitt. Með þessu er verið að vernda verðmæt svæði og draga úr mögulegum ruðningsáhrifum fiskeldis á aðra starfsemi, t.a.m. ferðaþjónustu.27

Í landsskipulagsstefnu er lögð áhersla á að gengið sé út frá svokallaðri vistkerfis­nálgun við strandsvæðisskipulag. Sú nálgun felur í sér að ákvarðanir um nýtingu auðlinda byggjast á bestu vísinda­legu þekkingu um vistkerfið og að haft sé virkt eftirlit með ástandi þess.28

J.  Stefna um dreifingu, innkaup og neyslu matvæla

J.1 Flutningur á austfirskum matvælum, innan svæðis og utan, sé auðveldur.

Vegakerfi styðji við skilvirkan flutning matvæla.

Tryggð verði hentug aðstaða til vöruflutninga á Egilsstaðaflugvelli og í höfnum landshlutans.

Unnið verði að því að styrkja möguleika til að tengja saman matvælaflutninga með flugi og skipum.

J.2 Tengsl framleiðenda, söluaðila og kaupenda styrkist.

Hvatt verði til samvinnu á milli framleiðenda á svæðinu og söluaðila í þeim tilgangi að svara þörfum markaða sem best.

Stuðlað verði að auknu aðgengi að austfirskum matvælum í verslunum og  veitingahúsum á Austurlandi og í öðrum landshlutum.

Stuðlað verði að samvinnu framleiðenda, veitingastaða og ferða­­þjónustuaðila til að skapa eftir­minnilega matarupplifun á Austur­landi.

Hvatt verði til þess að stofnanir og fyrirtæki á Austurlandi kaupi mat og hráefni úr landshlutanum.

Hvatt verði til þess að koma á vef­verslun sem selur austfirsk matvæli með áherslu á rekjanlegan uppruna.

Hvatt verði til markaðssetningar á austfirskum matvælum erlendis.

 

Skýringar við stefnu um dreifingu, innkaup og neyslu matvæla

Langmest af íslenskum landbúnaðarvörum fer á markað innanlands en því er öfugt farið með sjávarafurðir og fiskeldi. Þannig hafa kröfur erlendra markaða haft áhrif á stjórnun og vinnslu sjávarfangs og kemur það berlega í ljós hvað varðar kröfur um sjálfbæra nýtingu auðlinda og rekjanleika afurða.

Helstu markaðir fyrir fiskeldi, líkt og sjávarútveg, eru erlendis. Mörg tækifæri fylgja fiskeldi og tengdri starfsemi og mikilvægt er að greinin þróist í sátt við samfélagið og tengist atvinnulífinu almennt og þekkingarstofnunum svæðisins.

  • 24 Sbr. lög um skipulag haf- og strandsvæða nr. 88/2018 og reglugerð um gerð strandsvæðisskipulags nr. 330/2020. Breyting á reglugerð nr. 196/2022.
  • 25 Staðarmörk sveitarfélaga eru 115 m út frá stórstraumsfjöruborði.
  • 26 Strandsvæðisskipulag á Austfjörðum.
  • 27 Fjarðabyggð 2017: Stefnuþættir í fiskeldi.
  • 28 Landsskipulagsstefna 2015-2026.