1.1 Hlutverk og viðfangsefni

Markmið sveitarfélaga á Austurlandi er að landshlutinn verði sífellt eftir­sóknarverðari til búsetu, starfa og ferða­laga. Svæðisskipulagi Austur­lands er ætlað að stuðla að þessu markmiði með því að samstilla stefnu sveitarfélaganna á sviði umhverfis, efnahags, samfélags og menningar. Leitast er við að samþætta þessi fjögur svið til að tryggja sjálfbæra þróun, núverandi og komandi kynslóðum í hag.

Svæðisskipulagið skilgreinir nokkur viðfangsefni á hverju sviði út frá:

  • Svæðisbundnum málum sem hafa verið til umfjöllunar í sóknaráætlun1 og áfangastaða­- áætlun Austurlands,2 sem og á vettvangi Sambands sveitarfélaga á Austurlandi á liðnum árum.3
  • Landslagsskipulagsstefnu 2015-20264 og tillögu Skipulags­stofn­unar að viðauka við hana sem fjallar um  um loftslag, landslag og lýðheilsu.5
  • Heimsmarkmiðum Sameinuðuþjóðanna um sjálfbæra þróun, en þau eru 17 talsins og hvert með nokkur undirmarkmið.6

Lögð var áhersla á að draga fram málaflokka og viðfangsefni sem hafa svæðisbundið mikilvægi en jafnframt gert ráð fyrir að bætt verði inn stefnu um einstök viðfangsefni síðar meir, eftir því sem tilefni þykir til að móta sameiginlega stefnu sveitarfélaganna. Ný viðfangs­efni eiga að geta fundið sinn stað í þeim ramma sem svæðisskipulagið setur.

Jafnframt var lögð áhersla á að svæðisskipulagið setti almenna stefnu sem slægi skýran tón fyrir nánari stefnu­mótun í aðalskipulagi og öðrum áætlun­um sveitarfélaganna. Umhverfismat áætlana7 mun gegna mikilvægu hlut­verki við tryggja samræmi við svæðis­skipulagið sem og við önnur viðeigandi stefnuskjöl.

  • 1 Sóknaráætlun Austurlands.
  • 2 Áfangastaðurinn Austurland.
  • 3 Samband sveitarfélaga á Austurlandi.
  • 4 Landsskipulagsstefna 2015-2026.
  • 5 Tillaga Skipulagsstofnunar að landsskipulags­stefnu. Loftslag, landslag og lýðheilsa.
  • 6 Heimsmarkmiðin um sjálfbæra þróun.
  • 7 Sbr. lög um umhverfismat framkvæmda og áætlana nr. 111/2021.