3.1 Byggð og grunnkerfi

Á Austurlandi þróast áfram byggðamynstur öflugra þéttbýlisstaða í fjölkjarnasamfélagi og möguleikum til búsetu í dreifbýli án tengsla við búskap fjölgar. Vistvænir ferðamátar verða ákjósanlegir og vegir á Austurlandi öruggir allan ársins hring. Ráðist verður í nauðsynlegar samgöngubætur og almenningssamgöngur styrktar. Rík áhersla verður lögð á reglulegt áætlunarflug til og frá Austurlandi og lykilsamgöngumannvirkjum í landshlutanum verður viðhaldið og þau efld. Orkulindir verða nýttar til að efla byggð, flutningsog dreifikerfi raforku verður áreiðanlegt og síma- og netsamband um allan landshlutann tryggt.

A. Stefna um byggðamynstur

A.1 Þéttbýlisstaðir styrkist sem öflugar einingar í sterku fjölkjarna samfélagi þéttbýlis og dreifbýlis.

Unnið verði að því að styrkja alla þéttbýlisstaði með uppbyggingu atvinnulífs, þjónustu og íbúðarhúsnæðis og með bættri aðstöðu til útivistar og annarrar af þreyingar.

Uppbygging og viðhald vegakerfis miði að því að það taki að hámarki 60 mínútur að aka að einum af fjórum stærstu þéttbýlisstöðunum hvaðanæva af svæðinu.

Almenningssamgöngur verði í boði á milli allra þéttbýlisstaðanna.

A.2 Samfélag í dreifbýli styrkist með möguleikum til búsetu þar án tengsla við búskap.

Núverandi íbúða- og þjónustukjarnar í dreifbýli, þ.e. á Hallormsstað, Eiðum og í Mjóafirði, viðhaldist og styrkist.

Uppbygging nýrra íbúða- og þjónustukjarna í dreifbýli verði ákvörðuð í aðalskipulagi, enda sé hún vel rökstudd m.t.t. áhrifa á umhverfi, efnahag og samfélag.

Góð fjarskiptakerfi og öruggt og öflugt flutningskerfi raforku tryggi góðar aðstæður fyrir búsetu og atvinnulíf í dreifbýli.

Byggðakjarnar og sveitir Austurlands árið 2022.

A.3 Byggðamynstur í þéttbýli styðji við virka og um leið vistvæna ferðamáta.

Fyrirkomulag landnotkunar, þéttleiki byggðar og útfærsla gatnaog stígakerfis, miði við að helsta þjónusta sé í að hámarki 15 mínútna göngu- eða hjólafæri frá heimilum. Í þeim tilgangi verði stuðlað að þéttingu innan núverandi byggðar fremur en útþenslu.

Götuhönnun miði að því að hægja á bílaumferð og tryggja öryggi og gott aðgengi að þjónustu fyrir gangandi og hjólandi vegfarendur.

A.4 Byggðamynstur í þéttbýli styðji við fjölbreytta húsakosti.

Skipulag þéttbýlis gefi kost á fjölbreyttum húsagerðum og íbúðastærðum til að svara þörfum ólíkra félagshópa.

A.5 Þróun byggðar taki mið af náttúruvá og miði að öruggu og hreinu umhverfi.

Við skipulagsgerð í þéttbýli og dreifbýli verði tekið tillit til hættu sem talin er stafa af náttúruvá, svo sem snjóflóðum, skriðuföllum, vatnsflóðum, eldgosum og jökulhlaupum. Mótun byggðar og skipulag landnotkunar tryggi loftgæði og hreint neysluvatn.1

15-mínútna bærinn. Verslun, þjónusta, leik- og útivistarsvæði í 15 mínútna göngu- eða hjólafæri.

Skýringar við stefnu um byggðamynstur

Byggðamynstur Austurlands

Á Austurlandi eru tæplega 11.000 íbúar, þar af rúmlega 1800 í strjálbýli. Þéttbýliskjarnarnir eru ellefu og liggja allir við sjó nema Egilsstaðir. Þrír þeirra eru með innan við 200 íbúa, fimm eru með á bilinu 300-700 íbúa, þrír með 1000-1500 og einn yfir 2500 íbúa.2

Í landsskipulagsstefnu er lögð áhersla á að styrkja samfélög með því að beina vexti að þeim kjörnum sem fyrir eru og skilgreina meginkjarna í hverjum landshluta. Tilgangurinn er að nýta innviði sem best og stuðla að því að til verði vinnusóknar- og þjónustusvæði sem geta staðið undir fjölbreyttri þjónustu.3

Á Austurlandi er ekki talið æskilegt að leggja höfuðáherslu á einn kjarna umfram aðra þar sem á svæðinu eru margir rótgrónir byggðarkjarnar, langt á milli sumra þeirra og torfært á vetrum. Því er lögð áhersla á að styrkja alla kjarna með einum eða öðrum hætti og bæta samgöngur á milli þeirra. Sérstaklega verður lögð áhersla á að bæta grunnþjónustu í nærsamfélagi4 og vinna að því að unnt verði að aka á milli allra þéttbýliskjarnanna á innan við 60 mínútum, allan ársins hring, sem einnig styður við Austurland sem eitt vinnusóknarsvæði.

Svæðisskipulagið beinir ákvörðun um nýja íbúðar- og þjónustukjarna eða ný íbúðarsvæði utan þéttbýlis til aðalskipulags.

Byggðakjarnar Austurlands og svæði sem er innan 60 mínútna akstursfjarlægðar frá fjórum stærstu kjörnunum m.v. vegakerfi árið 2022

Byggðamynstur í þéttbýli

Við skipulag þéttbýlis þarf að leitast við að móta heilnæmt og vistvænt umhverfi sem veitir íbúum vellíðan og hefur sterkt aðdráttarafl fyrir gesti. Samspil landnotkunar, þéttleika og gatna- og stígakerfis hefur þar lykilhlutverki að gegna.

Í bæjum og þorpum, þar sem gatnaog stígakerfi er þéttriðið og þjónusta í innan við tíu eða fimmtán mínútna göngufæri við flest heimili, er hægt að sinna flestum erindum fótgangandi og/eða á reiðhjóli. Austfirskir bæir uppfylla flestir nú þegar þessi fjarlægðarviðmið og geta þróast enn frekar í þessa átt. Með góðum stígatengingum og vandaðri hönnun göturýma fyrir alla ferðamáta er hægt að greiða fyrir daglegri hreyfingu og bættri lýðheilsu. Gott aðgengi að útivistarsvæðum innan og í grennd þéttbýlis er einnig mikilvægur þáttur í heilnæmu og vistvænu bæjarumhverfi.5

Við þróun þéttbýlis þarf enn fremur að huga að fjölbreyttum húsnæðiskostum sem ýta undir félagslega fjölbreytni og auðvelda íbúum að stækka við sig og minnka eftir mismunandi æviskeiðum.6

Á. Stefna um samgöngur

Á.1 Vegakerfi Austurlands styrkist og byggi á fjórum megineiningum:

Baugur sem er megintenging vega og jarðganga milli stærstu þéttbýlisstaða á Austurlandi og annarra sem að honum liggja. Þéttbýlisstaðir sem liggja að baugnum eru Egilsstaðir/Fellabær, Seyðisfjörður, Neskaupstaður, Eskifjörður, Reyðarfjörður, Fáskrúðsfjörður, Stöðvarfjörður og Breiðdalsvík.

Nælur sem tengja aðra þéttbýlisstaði Austurlands inn á bauginn með vegum eða jarðgöngum.

Lykkjur sem eru mikilvægar aukatengingar sem einkum þjóna sem ferðaleiðir.

Festar sem eru vegtengingar inn og út úr landshlutanum.

Á.2 Nauðsynlegar samgöngubætur í landshlutanum raungerist með umferðaröryggi og styttingu vegalengda að leiðarljósi.

Uppbygging og viðhald vegakerfis miði að því að það taki að hámarki 60 mínútur að aka frá smærri þéttbýlisstöðunum að einum af fjórum stærstu þéttbýlisstöðunum.

Unnið verði að því að bæta vegi, gera jarðgöng og breikka brýr til að stytta leiðir og auka öryggi. Þá þarf að gera stofn- og tengivegi greiðfæra allt árið um kring þannig að auðvelt sé að sækja þjónustu og vinnu á milli staða og ferðast um landshlutann. Áhersla verði lögð á að byggja Fjarðarheiðargöng, Seyðisfjarðargöng og Mjóafjarðargöng með það að markmiði að hringtengja miðsvæði Austurlands. Unnið verði að því að aðrar jarðgangaframkvæmdir, sem taldar eru nauðsynlegar, verði settar á 15 ára samgönguáætlun og síðan 5 ára aðgerðaáætlun hennar.

Unnið verði að því að bæta hringtengingu (lykkju) á milli Fljótsdals og Jökuldals um hálendishluta Austurlands í samstarfi við samgönguyfirvöld.

Þróun vegakerfis Austurlands miði að því að hringtenging, kölluð baugur, verði á milli stærstu þéttbýlisstaða og að út frá honum liggi nælur og lykkjur sem tengja aðra byggð inn á bauginn með vegum eða jarðgöngum. Vegir sem tengja Austurland við aðra landshluta kallast festar.

Á.3 Stofnvegir úr landshlutanum til norðurs og suðurs séu greiðfærir og öruggir allan ársins hring.

Unnið verði að því að bæta vegi til annarra landshluta (festar) þannig að þeir gegni sem best hlutverki sínu.

Á.4 Almenningssamgöngur innan landshlutans styrkist.

Tryggt verði að almennings­samgöngur séu í boði á milli allra þéttbýlisstaða.

Leiðakerfi bjóði upp á góða tengingu á milli ferjuferða í Seyðis­fjarðarhöfn og flugs um Egils­staða­flugvöll.

Leiðakerfi miði við akstur byrji frá minni stöðum að stærri.

Stuðlað verði að farþegasiglingum á milli fjarða þar sem þörf er á.

Á.5 Áætlunarflug til og frá landshlutanum sé öruggt og reglulegt allan ársins hring og  aðstaða til sjúkraflugs sem best.

Egilsstaðaflugvelli og Vopna­fjarðar­flugvelli verði vel viðhaldið í þessum tilgangi og aðstaða í samræmi við þarfir.

Flugbrautinni á Norðfirði verði vel viðhaldið sem lendingarstað fyrir neyðar- og sjúkraflug, auk einka­flugs minni véla.

Aðrar flugbrautir og lendingar­staðir, sem þjóna öryggi og nýtast í ferðaþjónustu, verði kortlagðir og staða þeirra og hlutverk skilgreind.

Verkefnið Loftbrú tryggi áfram fargjöld á viðráðanlegu verði til höfuð­borgarsvæðis og úrræðið verði þróað áfram til að styrkja
byggð.

Á.6 Egilsstaðaflugvöllur eflist sem alþjóðaflugvöllur.

Rými og aðstaða á flugvellinum miði við þarfir millilandaflugs fyrir fólk og vöruflutninga.

Áfram verði unnið að því  að bæta samkeppnisstöðu flugvallarins og markaðssetja hann fyrir milli­landaflug.

Á.7 Seyðisfjarðarhöfn styrkist sem aðalhlið Íslands fyrir farþegaflutninga á sjó, auk þess að gegna mikilvægu hlutverki sem vöruflutninga­höfn.

Rými og aðstaða við höfnina miði við þarfir farþegaflutninga og vöruflutninga og mannvirkjum verði vel viðhaldið.

Skýringar við stefnu um samgöngur

Vegasamgöngur

Sveitarfélög á Austurlandi hafa síðustu ár kallað eftir nýjum jarðgöngum milli þéttbýliskjarna til að rjúfa vetrareinangrun og skapa hringleið á svæðinu sem tengir firðina og Egilsstaði inni á Héraði.7 Mikilvægt þykir að ráðast í samgöngubætur sem tryggja að ferðatími verði í mesta lagi 60 mínútur í næsta kjarna. Um 90% íbúa Austurlands búa í innan við klukkutíma akstursfjarlægð frá Egilsstöðum en hin 10% í minna en 1,5 klukkutíma fjarlægð. Nýleg jarðgöng frá Reyðarfirði til Fáskrúðsfjarðar og frá Eskifirði til Norðfjarðar hafa stytt ferðatíma talsvert.8

Í samgönguáætlun fyrir árin 2020–2034 er gert ráð fyrir að framkvæmdir hefjist við Fjarðarheiðargöng á árinu 2022 og í framhaldinu verði gerð jarðgöng milli Seyðisfjarðar og Mjóa­fjarðar (Seyðisfjarðargöng) og Mjóa­fjarðar og Fannardals (Mjóa­fjarðar­göng).9 Þessar framkvæmdir munu mynda hringtengingu innan svæðisins. Hugmyndir hafa verið uppi um fleiri jarðgöng til að tengja byggðirnar enn betur saman og tryggja öruggar samgöngur allan ársins hring. Þar er helst að nefna Vopnafjarðargöng10, göng undir Vatns­skarð11, Breiðdalsheiði og Berufjarðarskarð.12 Þá hefur einnig verið bent á möguleg jarðgöng á milli Álftafjarðar og Lónsfjarðar til að bæta tengsl milli Austur­lands og Suðurlands.Aðrar samgöngubætur sem kallað hefur verið eftir eru t.a.m. heilsársvegur yfir Öxi, ný brú yfir Lagarfljót, uppbygging á þjóðvegi 1 í sunnan­verðum Fáskrúðsfirði og víðar, bundið slitlag þar sem enn eru malarvegir og tvöföldun einbreiðra brúa.13

Við aðalskipulags- og deiliskipulagsvinnu m.t.t. vega er hægt að nýta leiðbeiningar sem Vegagerðin og Samband íslenskra sveitarfélaga hafa gefið út.14 Við þá vinnu er mikilvægt að huga að samráði og taka mið af umferðar­öryggisáætlun stjórnvalda en  hún er hluti samgönguáætlunar.

Flugvellir, hafnir og vegir á Austurlandi árið 2022.

Almenningssamgöngur

Í landsskipulagsstefnu er lögð höfuð­áhersla á að boðið sé upp á fjölbreytta samgöngumáta en þar spila almenn­ings­­samgöngur lykilhlutverk. Almenn­ingssamgöngur eru hagkvæmur og vistvænn ferðamáti og nauðsynlegar fyrir þá sem ekki hafa bíl til umráða og geta eða vilja ekki fara ferða sinna á bíl.

Á Austurlandi fara almenningsvagnar á milli helstu þéttbýlisstaða á svæðinu og flugvallarins á Egilsstöðum. Þá er Strætó með tengingar norður í land og frá Höfn um Suðurland. Tengingu vantar hins vegar til Djúpavogs og Breiðdalsvíkur sem og á milli Vopnafjarðar og Egilsstaða. Þess utan er leiðakerfi á vegum Fjarða­byggðar sem miðar að samtengingu byggða­kjarna innan sveitarfélagsins sem og hjá Múlaþingi sem rekur ferðir á milli Egilsstaða og Fellabæjar.

Reglubundnar ferjusiglingar eru með farþega og frakt milli Mjóafjarðar og Neskaupstaðar yfir vetrartímann.15

Íbúar á Austurlandi fá 40% afslátt af flug­fargjöldum fyrir allt að þrjár ferðir til og frá höfuð­borgar­svæðinu á ári í gegnum verkefnið Loftbrú.16

Flugsamgöngur

Flugsamgöngur eru sérstaklega mikil­vægar fyrir Austurland enda sá landshluti sem er fjærst frá höfuð­borginni. Það tekur nokkurn veginn jafnlangan tíma að aka frá
Egilsstöðum til Reykjavíkur hvort sem að farið er suður eða norður fyrir.

Flugvellir fyrir áætlunarflug eru á Egilsstöðum og Vopnafirði en auk þess er flugbraut á Norðfirði sem hefur verið notuð fyrir neyðar- og sjúkraflug. Egilsstaðaflugvöllur er einn af fjórum flugvöllum á Íslandi sem uppfylla kröfur um milli­landa­flug og er jafnframt fyrsti varaflug­völlur fyrir Keflavíkurflugvöll. Á flug­vellinum eru kjöraðstæður fyrir aðflug
og lendingu og hagstætt veðurfar.17 Daglega eru þrjár áætlunar­ferðir milli Egilsstaða og Reykjavíkur árið um kring og er flugtíminn um 45 mínútur. Flugvöllurinn þjónar einnig leiguflugi til útlanda og einkaflugi. Það er yfirlýst markmið íslenskra stjórnvalda að reglulegt millilandaflug verði um flugvöllinn í náinni framtíð. Daglegt áætlunarflug er á milli Vopna­fjarðar og Akureyrar virka daga.18

Undanfarin ár hefur mikið verið unnið í markaðssetningu Egilsstaða­flug­vallar sem alþjóðlegs flugvallar.19 Fólks- og vöruflutningar í millilanda­flugi myndu efla ferðaþjónustu og aðra verslun og þjónustu á Austurlandi.20 Einnig gætu þeir opnað fyrir sóknarfæri í aukinni framleiðslu á ferskvöru, s.s. sjávar- og eldisafurðum. Samtök sveitarfélaga á Austurlandi hafa einnig lagt áherslu á að tryggð sé aðstaða fyrir þyrlusveit Landhelgisgæslunnar á flugvellinum.21

Samgöngur á sjó

Hafnir gegna lykilhlutverki í atvinnu­lífi á Austurlandi enda byggðust flestir þéttbýlisstaðir á svæðinu upp í kringum sjósókn. Á Austurlandi eru sjö hafnir í grunnneti samgöngukerfis­ins. Mjó­eyrar­höfn á Reyðarfirði er næst stærsta höfn landsins en um 1,5 milljón tonna af vörum fara um höfnina á ári.22 Stór farþegaflutninga­höfn er á Seyðisfirði þaðan sem ferjan Norræna siglir vikulega með fólk og vörur og bíla til Þórshafnar í Færeyjum og þaðan til Hirtshals í Danmörku. Seyðis­fjörður, ásamt fleiri fjörðum á
Austurlandi, er einnig vinsæll áfanga­staður skemmtiferðaskipa yfir sumarið.23

Stórar hafnir sem þjóna fyrst og fremst fiskiskipum eru á Vopnafirði, Neskaupstað, Eskifirði og Fáskrúðsfirði. Meðalstórar fiskihafnir eru auk þess á Djúpavogi og á Reyðarfirði og smærri bátahafnir á Stöðvarfirði, Borgarfirði, Mjóafirði og Breiðdalsvík.24 Laxeldi eru einnig vaxandi atvinnu­grein í fjörðunum og því fylgja aukin umsvif.25 Mikilvægt er að höfnum sé við haldið og tryggt að þær hafi svigrúm til stækkunar vegna aukinna umsvifa og nýrra atvinnugreina.26    

B.  Stefna um orku, fjarskipti og fráveitu

B.1 Orkulindir nýtist til eflingar byggðar í landshlutanum.

Við ákvörðun um nýtingu vatns, jarðhita og vinds til orkuframleiðslu verði sjálfbærni, umhverfisvernd og landslagsgæði höfð að leiðarljósi og byggt á greiningu á orkukostum og mati á áhrifum nýtingar og orkuflutnings á umhverfi, efnahag og samfélag.

Stuðlað verði að góðri orkunýtni.

B.2 Flutnings- og dreifikerfi raforku séu örugg og gæði orkuafhendingar mikil.

Tryggð verði fullnægjandi tenging Austurlandskerfisins við megin­flutningskerfi Íslands.

Tryggður verði aðgangur að þriggja fasa rafmagni í öllum byggðum landshlutans.

B.3 Síma- og netsamband sé gott um allan landshlutann.

Lokið verði við lagningu ljósleiðara um allt svæðið.

Unnið verði að því að tryggja farsíma­samband í byggð og á fjölförnum stöðum, sérstaklega á öllum stofnvegum og á öðrum mikilvægum samgönguleiðum.

Unnið verði að því að tryggja far­símasamband á öllum helstu áfangastöðum ferðafólks.

B.4 Fráveitur standast kröfur laga og reglugerða. 

Unnið verði að úrbótum í frá­veitumálum í þéttbýli og dreifbýli, þ.m.t. hreinsun fráveituvatns í samræmi við reglugerð nr. 798/1999 um fráveitur og skólp.

Leitast skal við að beita blágrænum ofanvatnslausnum sem víðast. Þannig má leggja af mörkum til loftslagsaðgerða með gróðri, líffræðilegum fjölbreytileika og
sköpun gróðurríks og heilnæms umhverfis.

Flutningskerfi raforku árið 2022.

Skýringar við stefnu um orku, fjarskipti og fráveitu

Raforka

Stærsta virkjun landsins með framleiðslugetu upp á 690 MW er í Fljótsdal. Auk hennar eru minni virkjanir á Austurlandi eins og Lagarfossvirkjun í Lagarfljóti (27,2 MW), Bjólfs- og Gúlsvirkjun í Seyðisfirði (9,8 MW) og Grímsárvirkjun í Skriðdal (2,8 MW). Engin orkuverk­efni á Austurlandi eru í nýtingarflokki gildandi ramma­áætlunar um vernd og orkunýtingu landsvæða.27 Tveir virkjunar­kostir á Aust­ur­landi eru í bið­flokki til­lögu að þriðja áfanga ramma­á­ætl­unar: Hrauna­virkjun til Beru­fjarðar (126 MW) og Hrauna­virkjun til Suð­ur­dals í Fljóts­dal (115 MW).28 Í skýrslu verkefnisstjórnar um fjórða áfanga ramma­áætlunar var 60 MW virkjun á Hraunasvæði í Hamarsfirði, Hamarsvirkjun, sett í biðflokk.29 Unnið er að fimmta áfanga ramma­áætlunar.

Á Fljótsdalshéraði og í Fljótsdal er hafin skoðun á aðstæðum fyrir vind­orkuver.30 Þá hafa smærri virkjanir einnig verið til umræðu.31

Dreifing raforku er grunnþjónusta sem mikilvægt er að allir landsmenn hafi öruggan aðgang að. Í Byggða­áætlun 2018-2024 er lögð áhersla á að flutnings- og dreifikerfi raforku mæti þörfum atvinnulífs og almenn­ings alls staðar á landinu.32 Svæðisbundna flutningskerfið á Austurlandi samanstendur af hring­tengingu á milli Hryggstekks, Eyvindar­ár, Eski­fjarðar, Stuðla og Hryggstekks. Hluti af þessum hring, þ.e. línur á milli Hryggstekks og Eyvindarár annars vegar og Hryggstekks og Stuðla hins vegar,  er rekinn á 132 kV en aðrar línur á 66 kV. Frá afhendingarstöðum í hringnum eru svo aðrir staðir í landshlutanum geisla­tengdir með 66 kV við svæðisflutnings­kerfið. Styrkja þarf flutningskerfið þar sem það getur illa annað núverandi álagi og reiknað er með jafnri aukningu á öllum afhendingarstöðum á næsta áratug.33

Samtök sveitarfélaga á Austurlandi hafa kallað eftir aðgangi að þriggja fasa rafmagni, sem er í jarðlínum og er öflugra en eins fasa loftlínur, og leggja til að samnýta framkvæmdir við lagningu ljósleiðara.34 

Í landsskipulagsstefnu er því beint til sveitarfélaga að byggja ákvörðun um orkuvinnslukosti og lagningu raflína á mati á umhverfisáhrifum, þar á meðal sjónrænum áhrifum og leitast við að velja þann kost sem veldur minnstum neikvæðum áhrifum. Einnig er lögð áhersla á að beina meiriháttar mann­virkjagerð að stöðum  sem rýra ekki víðerni eða landslagsheildir hálendisins.35 Við nýtingu vindorku þarf sérstaklega að huga að áhrifum á landslag og  fuglalíf.36

Fjarskiptakerfi

Góð fjarskipti eru lykilatriði fyrir atvinnu­líf, lífsgæði og öryggi í nútímasamfélagi. Markmið íslenskra stjórnvalda á sviði fjarskipta er að veita 99,9% lögheimila og atvinnuhúsnæðis aðgang að ljósleiðara fyrir árslok 2025 með veitingu ríkisstyrkja til ljósleiðaraupp­byggingar í dreifbýli utan markaðs­svæða.37

Unnið hefur verið að ljósleiðaravæðingu Austurlands á síðustu árum og er hún langt komin.38 Einn af þremur neðansjávarköplum sem tengja ljósleiðaranet við Ísland kemur í land á Seyðisfirði.39

Fráveitumál

Sveitarfélög bera ábyrgð á uppbyggingu og rekstri fráveitna og er skylt að koma þeim upp í þéttbýli en í dreifbýli skal sveitarfélag koma fyrir fráveitu þar sem fjöldi húsa er u.þ.b. 20 á hverja 10 ha og/eða atvinnustarfsemi felur í sér losun sem nemur u.þ.b. 50 persónueiningum eða meira á hverja 10 ha. Skyldur þessar gilda þó ekki fyrir fyrrnefnda byggð sem var til staðar þegar lög nr. 9/2009 um uppbyggingu og rekstur fráveitna tóku gildi. Ef sveitarfélag nýtir ekki heimildir sínar um að koma á fráveitu í dreifbýli skal landeigandi sjá til þess að skólp sé hreinsað m.a. í samræmi við deili­skipulag.40

Blágrænar, eða sjálfbærar, ofanvatnslausnir eru þær aðferðir við meðhöndlun ofanvatns kallaðar sem veita ofanvatni í þéttbýli á  náttúrulegan hátt niður í jarðveginn sem næst þeim stað þar sem það fellur og yfirborð er haft eins gropið og kostur er. Ofan­vatni sem ekki nær að síga niður strax er veitt yfir í net grænna geira og svæða. Þar nær það með tímanum að seytla niður. Jarðvegurinn, ásamt gróðrinum, hreinsar ofanvatnið jafnframt af mengunar­efnum, þar sem þau ná að brotna niður að miklu leyti. Hringrás vatns verður sýnilegri í nærumhverf­inu og auðgar bæði umhverfi þéttbýlis­ins og lífríkið í heild. Þegar vel tekst til verða blágrænar ofanvatnslausnir því að bæjarprýði; gerir bæjarrýmin bæði fallegri, grænni og nytsamlegri.41

 • 1 Hreint loft til framtíðar. Áætlun um loftgæði á Íslandi 2018-2029.
 • 2 Hagstofa Íslands 1.1.2021.
 • 3 Landsskipulagsstefna 2015–2026.
 • 4 Sbr. Byggðaáætlun 2018-2024.
 • 5 Tillaga að viðauka við landsskipulagsstefnu.
 • 6 Landsskipulagsstefna 2015–2026.
 • 7 Aðalskipulag Fljótsdalshéraðs.
 • 8 Innviðagreining Fljótsdalshéraðs.
 • 9 Samgönguáætlun 2020-2034.
 • 10 Ályktanir haustþings SSA 2019.
 • 11 Jarðgöng á Austurlandi. Mat á samfélagsáhrifum og arðsemi. RHA 2005.
 • 12 Aðalskipulag Fjarðabyggðar 2020-2040.
 • 13 Ályktanir haustþings SSA 2019.
 • 14 Vegir og skipulag. Vegagerðin og Samband íslenskra sveitarfélaga 2014.
 • 15 Heimasíða Vegagerðarinnar, sótt 27. janúar 2022.
 • 16 Ársskýrsla Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins 2020.
 • 17 Innviðagreining Fljótsdalshéraðs.
 • 18 Byggðastofnun 2020: Stöðugreining Austurlands 2019.
 • 19 Sóknaráætlun 2015-2019 (uppfærð 2016).
 • 20 Aðalskipulag Fljótsdalshéraðs.
 • 21 Aðalfundur SSA 2018.
 • 22 Innviðagreining Fljótsdalshéraðs.
 • 23 Innviðagreining Fljótsdalshéraðs.
 • 24 Byggðastofnun 2020: Stöðugreining Austurlands 2019.
 • 25 Innviðagreining Fljótsdalshéraðs.
 • 26 Ályktanir haustþings SSA 2019.
 • 27 Þingsályktun um áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.
 • 28 Tillaga til þingsályktunar um áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.
 • 29 Skýrsla verkefnisstjórnar 4. áfanga.
 • 30 Innviðagreining Fljótsdalshéraðs.
 • 31 Tillaga Landsnets að Kerfisáætlun 2021-2030
 • 32 Byggðaáætlun 2018-2024.
 • 33 Tillaga Landsnets að Kerfisáætlun 2021-2030.
 • 34 Ályktanir haustþings SSA 2019.
 • 35 Landsskipulagsstefna 2015–2026.
 • 36 Menja Von Schmalensee (2021). Vindmylluparadísin Ísland?
 • 37 Stjórnarráðið.
 • 38 Sóknaráætlun 2015-2019 (uppfærð 2016).
 • 39 Innviðagreining Fljótsdalshéraðs.
 • 40 Umhverfisstofnun, fráveita.
 • 41 Blágrænar ofanvatnslausnir. Innleiðing við íslenskar aðstæður.