6.1 Leiðangrar og upplifun

Vandað verður til verka í hönnun og uppbyggingu stærri og smærri áfangastaða um allt Austurland. Innviðir sem þjóna ferðamennsku verða styrktir og þróað verður net leiða fyrir fjölbreytta ferðamáta.

V.  Stefna um ferðaauðlindir

V.1 Fjölbreytt landslag Austurlands nýtist sem best til eflingar búsetugæða og ferða­þjónustu, um leið og staðið er vörð um sérkenni þess.

Stuðlað verði að því að uppbygg­ing í afþreyingu og ferðaþjónustu dreifist sem mest um lands­hlutann til að koma í veg fyrir ofálag á til­tekna staði og stuðla að því að allt svæðið njóti aukinnar þjónustu.

V.2 Samgöngu-, veitu- og fjar­skiptakerfi nýtist sem best og styrkist í samhengi við ferðamennsku jafnt sem búsetu.

Stuðlað verði að því að upp­bygging í ferðaþjónustu nýti og styrki  samgöngukerfi og aðra innviði um allan landshlutann til að allt svæðið njóti góðs af, um leið og komið verði í veg fyrir ofálag á einstaka kjarna eða staði.

V.3 Vörur, þjónusta og menningalíf landshlutans nýtist og styrkist jafnt fyrir íbúa í landshlutanum sem og ferðafólk.

Stuðlað verði að því að ferða­þjónustuaðilar nýti sem mest þá þjónustu og vörur sem fyrir eru á svæðinu um leið og stuðlað er að því að nýjar vörur skapist.

Skýringar við stefnu um ferðaauðlindir

Líta má á landslag og einstaka staði Austurlands sem auðlind sem íbúar og gestir nýta og njóta. Þessi auðlind er mikilvæg fyrir lífsgæði heimamanna um leið og hún er undirstaða ferða­þjón­ustu.  Brýnt er því að standa vörð um auð­lindina, jafnframt því að greina þau tækifæri sem í henni liggja til frekari þróunar búsetugæða og atvinnulífs.

Innviðir á Austurlandi, s.s. flugvellir, hafnir og vegir, gefa kost á frekari nýt­ingu og uppbyggingu í afþreyingu og ferðaþjónustu. Viðhald þeirra og styrking þarf þó að haldast í hendur við fjölgun ferðafólks með tilheyrandi álagi á einstaka staði.

Gestir upplifa landshlutann m.a. í gegnum austfirskar vörur, þjónustu og menningarlíf. Því jákvæðari sem upp­lifunin er, því meira aðdráttarafl hefur Austurland fyrir heimamenn og gesti. Aukin gæði vöru og þjónustu, s.s. matvöru, veitinga og gistiþjónustu,
er þannig báðum hópum í hag.

Dæmi um ferðaleiðir fyrir akandi.1

X.  Stefna um ferðaleiðir

X.1 Net ferðaleiða fyrir fjölbreytta ferðamáta, með söguþráðum og áfangastöðum, þróist um allan landshlutann.

Áfram verði unnið að þróun lengri og styttri ökuleiða, gönguleiða, reiðleiða og hjólaleiða sem m.a. byggja á gömlum þjóðleiðum og bjóða upp á að njóta fjölbreytni í landslagi, náttúru og menningu Austurlands og fara sem víðast um lands­hlutann.

Göngu-, reið- og hjólaleiðir verði kortlagðar og flokkaðar eftir lengd og færð/erfiðleikastigi.

Göngu-, reið- og hjólaleiðir sem tengja  sveitarfélag saman verði festar í aðalskipulagi.

Þróaðar verði leiðir sem henta sérstaklega fyrir ferðafólk með ólíka hreyfigetu, þroska og færni.

Hönnun hjólreiða- og göngustíga meðfram umferðarmestu þjóð­vegum verði í samráði við Vega­gerð­ina og tryggt verði að stígarnir uppfylli kröfur og umferðar­­öryggis­mat stofnunarinnar, þannig að þeir verði styrkhæfir á grundvelli samgöngu­áætlunar.

Unnið verði að þróun ferðaleiða meðfram strönd, m.a. með skilgreiningu staða þar sem heimilt er að leggjast að, þ.m.t. bátar sem flytja farþega úr skemmtiferða­skipum í land.

Þróaðir verði möguleikar til að fara um vötn og ár.

Ferðaleiðirnar verði settar fram á ferðavef Austurlands þar sem nálgast má upplýsingar um umsjónar­aðila (eftir því sem við á), lengd, færð, erfiðleikastig og áfanga- og áningarstaði, þ.m.t. gisti- og þjónustustaði, áningarhólf fyrir hesta og lendingarstaði við strendur, eftir því sem við á.

Sett verði fram kynningarefni um leiðirnar og þær markaðs­settar með markvissum hætti, jafnt gagnvart íbúum sem gestum.

Unnið verði að vöruþróun í tengsl­um við ferðaleiðir, s.s. matvöru, handverk, veitingaþjónustu, gist­ingu og afþreyingarmöguleika.

X.2 Aðgengi og öryggi ferðaleiða styrkist og umsjón um þær skýrist.

Stuðlað verði að því að bílastæði verði í boði á ökuleiðum og við upphaf og enda tiltekinna göngu- og hjólaleiða, þannig að auðvelt sé að blanda ferðamátum.

Leitast verði við að lágmarka  árekstra á milli ferðamáta á vinsælum leiðum, t.d. með viðeigandi merkingum og reglum um hvar ólíkir ferðamátar eru heimilir og hvar ekki.

Skilgreindar verði tilteknar vetrar­ferðaleiðir þar sem snjómokstur og önnur vetrarþjónusta er tryggð. Það getur átt við göngu- og hjóla­stíga í þéttbýli og í grennd þess, jafnt sem tiltekna vegi.

Fylgst verði með álagi á einstakar leiðir og brugðist verði við með viðeigandi hætti þegar þess er talin þörf.

Skilgreindir verði umsjónaraðilar ferðaleiða eftir því sem við getur átt.

Lögð verði áhersla á að leiðsögumenn í skipulögðum hópferðum hafi góða staðarþekkingu.

Dæmi um lengri gönguleiðir.2

Skýringar við stefnu um ferðaleiðir

Skilgreining tiltekinna lengri ferðaleiða er vel þekkt aðferð við byggðaþróun. Tilgangurinn er að samhæfa uppbygg­ingu í ferðaþjónustu á tilteknu svæði þannig að ímynd þess styrkist og aðdráttar­afl aukist, sem aftur getur laðað að fleiri gesti og ný fyrirtæki og jafnvel nýja íbúa. Ferðaleiðirnar geta verið öku-, göngu-, reið- eða hjólaleiðir og jafnvel strand- og vatna­leiðir. Mörg þekkt erlend dæmi eru um þróun og markaðssetningu slíkra ferða­leiða og má nefna ökuleiðina um vestur­strönd Írlands og þjóðstígakerfi Englands og Skotlands.3

Á Íslandi eiga nokkrar ökuleiðir sér styttri og lengri sögu sem markaðsettar ferðaleiðir, s.s. Gullni hringurinn, Demantshringurinn, Norðurstrandar­leið og  Vestfjarðaleið. Fleiri eru í þróun, t.d. á Snæfellsnesi.4 Á Austurlandi hefur samsvarandi þróun verið í gangi og kynntar hafa verið nokkrar ferða­leiðir fyrir akandi ferðalanga. Þær dreifast um allan landshlutann og hver leið hefur fengið sitt nafn:
Austurströndin, Flakkað um firði, Um öræfi og dali, Við ysta haf og Fljótsdalshringurinn.5

Lýsingar á fjölmörgum gönguleiðum á Austurlandi hafa verið settar fram á ferða­vef Austurlands.6 Nokkrar lengri leiðir eru vel þekktar, s.s. Víknaslóðir, Gerpissvæðið, heiðarbýlin á Jökuldals­heiði og leiðin á milli Fljótsdals og Stafa­fells í Lóni sem kölluð hefur verið Austurstræti.7 Sóknarfæri liggja í frekari ferðaþjónustu í tengslum við leiðirnar og viðburðahald, t.d. Dyrfjalla­hlaup á Borgarfirði eystra.

Austurland býður upp á áhugaverða valkosti fyrir fjallahjólatúra og þá sem vilja ferðast á reiðhjólum. Líkt og annars staðar á landinu njóta hjólreiðar vaxandi vinsælda í landshlutanum og tækifærin mörg. Vísi að upp­byggingu slíkrar ferða­þjónustu má finna m.a. í gerð hjólaleiða í Rana­skógi í Fljótsdal og á Borgarfirði eystra þar sem gamlir vegslóðar eru nýttir.

Tjaldsvæði á Austurlandi.9

Y.  Stefna um áfangastaði

Y.1 Flokkunarkerfi áfangastaða þróist sem skipulagsverkfæri.

Áfangastaðir á helstu ferðaleiðum verði flokkaðir eftir gerð, aðgengi og núverandi eða mögulegu hlutverki í ferðaleiðakerfinu, álagi/þolmörkum og umsjón. Þörf fyrir innviði á þeim verði greind, s.s. hvort tiltekinnar aðstöðu er þörf (útsýnispalls, salernis, stígagerðar) eða hvort setja þarf upp skilti eða aðrar merkingar. Framkvæmda­áætlun byggi á greiningunni.

Framangreind flokkun og greining verði jafnframt nýtt til að skilgreina nokkra lykiláfangastaði um allan landshlutann þar sem stefnt verði að uppbyggingu innviða sem geta í senn verið aðdráttarafl fyrir ferða­menn og til verndar nátt­úru og/eða menningarsögulegum minjum.8

Y.2 Hönnun áfangastaða sé vönduð og framkvæmdir á þeim vel undirbúnar.

Vandað verði til allra skrefa í skipulags-, hönnunar- og framkvæmda­ferli áfangastaða.

Unninn verði gátlisti fyrir aðal­skipu­lag og deiliskipulag áfanga­staða til að tryggja að áherslur svæðis­skipulags og áfangastaða­áætlunar nái fram að ganga.

Hvatt verði til að gera ramma­hluta aðalskipulags fyrir þau svæði sveitar­félaga þar sem samræma þarf uppbyggingu nokkurra áfanga­staða og/eða samræma hagsmuni ferðaþjónustu við aðra landnotkun.

Y.3 Góð tjaldsvæði séu í boði um allan landshlutann.

Tryggð verði vel útbúin tjaldsvæði á þéttbýlisstöðum og nokkrum völdum stöðum í dreifbýli. Góður útbúnaður nái a.m.k. til hreinlætis- og eldunaraðstöðu, rafmagns og í einhverjum tilvikum afþreyingaraðstöðu, t.d. leiktækja.

Vinsælir áfangastaðir á Austurlandi.13

Skýringar við stefnu um áfangastaði

Ferðamálastofa lét á árunum 2014-2015 kortleggja mögulega viðkomu­staði ferðafólks á Íslandi  í samstarfi við heimafólk og greina þannig hvar auð­lindir ferðaþjónustunnar og tækifæri liggja til framtíðar.10 Þessi gögn voru nýtt við mótun Áfangastaðaáætlunar Austur­lands 2018-2021. Nokkrir áfanga­staðir í landshlutanum eru nú þegar á framkvæmdaáætlun eða í vinnslu. Vinsælir staðir hafa verið kortlagðir í samvinnu við sveitarfélögin, svo og mögulegir aðrir staðir sem koma til síðari skoðunar.11

Við frekari stefnumótun um áfangastaði er mikilvægt að skilgreina mismunandi eðli eða tegund ferðamannastaða, t.d. með tilliti til þess fjölda sem hægt er að taka á móti og hverja þarf að vernda gagnvart mikilli umferð. Einnig er gagnlegt að greina hvaða staðir höfða til ákveðinnar tegundar ferðamennsku. Aðalskipulag gæti þarna gegnt mikilvægu hlutverki.12

Við  frekari stefnumótun áfangastaða á hálendinu þarf að gæta samræmis við landsskipulagsstefnu og stjórnunar- og verndaráætlun Vatnajökulsþjóðgarðs.  Gildandi landsskipulagsstefna mælir fyrir um að uppbygging ferðamanna­aðstöðu á miðhálendinu verði takmörkuð og að megináhersla verði lögð á uppbyggingu á jaðarsvæðum hálendisins og á nokkrum afmörkuðum svæðum við aðalvegi þess. Gengið verði út frá flokkun þjónustustaða í jaðarmiðstöðvar,  hálendismiðstöðvar, skálasvæði og fjallasel. Sú flokkun byggir á fyrra svæðisskipulagi miðhálendisins sem fallið er úr gildi en sveitar­félög á Austurlandi hafa þegar innleitt í sitt aðalskipulag.

  • 1 Vefsjá svæðisskipulags Austurlands.
  • 2 Ferðakort fyrir Fjarðabyggð, Djúpavog, Víknaslóðir og heiðarbýlin á Jökuldalsheiði, Íslenskir þjóðstígar og póstleið og alfaraleiðir frá Höfn til Borgarfjarðar eystra.
  • 3 The Wild Atlantic Way, National Trails.
  • 4 Svæðisskipulag Snæfellsness.
  • 5 Visit Austurland.
  • 6 Visit Austurland.
  • 7 Íslenskir þjóðstígar.
  • 8 Sbr. lög og landsáætlun um innviði til verndar náttúru og menningarsögulegum minjum.
  • 9 Þjónustukort Byggðastofnunar.
  • 10 Vefur og kortasjá Ferðamálastofu.
  • 11 Áfangastaðurinn Austurland 2021: Áherslur Austurlands.
  • 12 Landsáætlun um innviði.
  • 13 Áfangastaðurinn Austurland 2021: Áherslur Austurlands.