7.2 Samráð og innleiðing

Það þarf víðtækt samráð og gott aðgengi að upplýsingum til að ná markmiðum svæðisskipulagsins. Mikil hefð er fyrir samvinnu á Austur­landi og hafa sveitarfélögin unnið saman að úrlausn ýmissa verkefna fyrir lands­hlutann í gegnum tíðina.

Innleiðing skipulagsins er háð breiðri þátttöku samfélagsins, þ.m.t. samtaka, félaga, fyrirtækja og stofnana. Sveitar­stjórnir á Austurlandi eiga sinn samstarfs­vettvang, SSA, þar sem mótaðar eru áherslur á hverjum tíma, m.a. á haustfundi sambandsins. Þá er hægt er að kalla saman samráðshóp sóknaráætlunar Austurlands og hag­aðilafund Austurbrúar til samtals um framfylgd svæðisskipulagsins. Í þessum hópum sitja fulltrúar frá ólíkum atvinnu­greinum, opinberum stofn­unum samfélagsins, ýmsum félögum og samtökum. Mikilvægt er að útvíkka og efla enn frekar þessa samráðsvett­vanga þegar svæðisskipulagið hefur tekið gildi þannig að allir hagsmunaaðilar í sam­félaginu geti tekið þátt í samtali um innleiðingu stefnunnar og nánari útfærslu. Það mætti t.d. gera með skipun nefnda um einstök stefnusvið svæðis­skipulagsins og faghópum um einstök verkefni.

Þá er mikilvægt fyrir innleiðinguna að svæðisskipulagsnefnd tryggi gott aðgengi að skipulaginu. Framsetningin þarf að vera skýr, miðlunin skilvirk og fjölbreytt þannig að það nái til breiðs hóps, t.d. til barna og ungmenna. Nefndin skal jafnframt hvetja til þess að efniviður skipulagsins sé nýttur í öll verkefni á vegum sveitarfélaga og stoðstofnanna þeirra sem tengjast með beinum eða óbeinum hætti stefnu­sviðum þess.

Tölulegar staðreyndir og stöðu aðgerðaáætlana þarf að uppfæra með reglubundnum hætti  svo hagsmuna­aðilar geti tekið upplýstar stefnu­mótandi ákvarðanir um sína starfsemi á grunni skipulagsins.

Jafnframt skal leggja áherslu á að hafa samráð út fyrir landshlutann þegar við á, t.d. við önnur landshlutasamtök og stýrihóp stjórnarráðs um byggðamál og miðla stefnu og viðfangsefnum svæðisskipulagsins til  þeirra starfshópa og nefnda, á vettvangi stjórnvalda, sem skipaðir eru fyrir einstök málefni.

Þeim markmiðum sem kalla á framfylgd í gegnum stefnu og áætlanir ríkisins og einstakra stofnana á vegum þess verður fylgt eftir í samráðs- og umsagnarferli um þær og með öðrum hætti eftir því sem tilefni er talið til. Sem dæmi má nefna eftirfarandi áætlanir:

  • Byggðaáætlun
  • Heilbrigðisstefna
  • Kerfisáætlun Landsnets
  • Landsskipulagsstefna
  • Landsáætlun um uppbyggingu innviða til verndar náttúru og menningarsögulegum minjum
  • Menningarstefna
  • Samgönguáætlun
  • Stjórnunar- og verndaráætlun
    Vatnajökulsþjóðgarðs