4.3 Skógur

Íbúar á Austurlandi munu í vaxandi mæli njóta útivistar í skógum. Skógrækt verður efld, skógum viðhaldið og þeir stækkaðir þar sem við á, ekki síst í grennd við þéttbýli. Skógrækt mun þjóna þýðingarmiklu hlutverki til verndar umhverfinu og verður vaxandi og framsækin atvinnugrein á Austurlandi.

K.  Stefna um uppbyggingu skógarauðlindar

K.1 Útbreiðsla vel staðsettra sjálfbærra skóga með margvíslega gagnsemi, aukist og náttúru­skógar viðhaldist og stækki.

Byggðir verði upp skógar með skipu­legum hætti og stuðlað að góðri umhirðu þeirra með fjölbreytt markmið í huga; kolefnisbindingu, framleiðslu afurða, uppgræðslu lands, jarðvegsvernd, aðra vistkerfis­þjónustu og  útivist almenn­ings.

Lögð verði áhersla á að landval til skógræktar og val á trjátegundum miði að því að viðhalda og styrkja líffræðilega fjölbreytni og taki tillit til verndargildis fuglastofna, gróðurfars, landslagssérkenna, fornleifa og annarra minja. Flokkun landbúnaðarlands m.t.t. gæða til ræktunar á matvælum eða fóðri, landslagsgreining og vistgerða­flokkun verði lögð til grundvallar skipulagsákvörðunum um landbúnaðarland.

Lögð verði áhersla á að vernda náttúruskóga Austurlands og stuðla að útbreiðslu þeirra.

Stuðlað verði að aukinni þekk­ingu og rannsóknum á skógum, skógrækt og miðlun þeirra.

K.2 Skógrækt stuðli að landgræðslu og góðum ræktunarskilyrðum.

Skjólbeltarækt verði beitt til að bæta ræktunarskilyrði.

Hvatt verði til skógræktar svo jarðvegsbinda megi rofið og rýrt land.

K.3 Skógar og skógrækt gegni lykilhlutverki við að ná markmiðum um kolefnishlutleysi landshlutans.

Hvatt verði til verndunar skóga og skógarleifa og ræktunar skóga til að binda og viðhalda kolefnisforða.

Stuðlað verði að aðlögunarhæfni og þanþoli skóga gagnvart loftslags­breytingum og aukinni kolefnisbindingu þeirra með vali á trjá­tegundum.

Hvatt verði til þess að skógræktarbændur taki þátt í verkefnum um skógrækt til kolefnisbindingar.

K.4 Skógrækt nýtist til að draga úr hugsanlegu tjóni vegna náttúruvár.

Fjallað verði um möguleika skóga til að gegna hlutverki við varnir gegn ofanflóðahættu.

K.5 Varnir gegn gróðureldum styrkist.

Lögð verði áhersla á að fjallað sé um varnir og viðbrögð við mögulegum gróðureldum í landshlutaáætlun og ræktunaráætlunum.

Útbreiðsla skóglendis á Austurlandi.

Skýringar við stefnu um uppbyggingu skógarauðlindar

Skógar eru eitt af aðalsérkennum lands­lags og landbúnaðar á Austurlandi. Þar á skógrækt sér langa sögu og mikil reynsla og þekking hefur byggst upp. Með áframhaldandi markvissri upp­byggingu auðlindarinnar og frekari eflingu þekkingar mun skógrækt í landshlutanum þróast í öfluga atvinnu­grein. Til greinarinnar telst vernd, endurheimt, ræktun, umhirða, nýting og endurnýjun skóga og síðan framleiðsla úr ýmis konar skógarfangi. Til hennar teljast líka rannsóknir, ráðgjöf og áætlanagerð.29

Í drögum að landsáætlun um skógrækt er lögð áhersla á að tekið sé mið af umhverfis- og samfélagsþáttum jafnt sem hagrænum við uppbyggingu og nýtingu skóga, þ.e. að skógræktin sé sjálfbær. Á grunni hennar er áformað að setja fram landshlutaáætlanir í samstarfi Skógræktar­innar, sveitarfélaga og hagsmunaaðila, og þar sett sameiginlega markmið um uppbyggingu skóga, viðmið við val á svæðum og trjáteg­undum og aðrar áherslur við ræktun.

Í landsáætlunardrögunum er sett í forgang að byggja upp skóg sem stemmir stigu við hraðfara loftslagsbreytingum til að stuðla að markmiði um kolefnis­hlutleysi á Íslandi árið 2040.30 Í tillögu að viðauka við landsskipulagsstefnu er einnig áhersla á að skógrækt miði að aukinni bindingu kolefnis í gróðri og jarðvegi.31 Það er jafnframt eitt af markmiðum laga um skógrækt og  laga um landgræðslu og í samræmi við það hefur Skógræktin hrundið af stað verkefni til að koma á fót viðurkenndu ferli vottunar á bindingu kolefnis með nýskógrækt.32

Auk kolefnisbindingar er skógrækt ætlað að styðja við áframhaldandi upp­byggingu og þróun annarra gæðaskóga, svo sem skógartengda atvinnuþróun, vistkerfisþjónustu skóga og lýðheilsu. Þá þarf að vernda náttúruskóga sem fyrir eru og stuðla að aukinni útbreiðslu þeirra til að vernda jarðveg og mikilvæg búsvæði, tryggja vatnsgæði og binda kolefni.33

Í tillögu að viðauka við lands­skipulagsstefnu er lögð áhersla á að skógrækt falli vel að landi og byggi á landslagsgreiningu, ásamt vistgerða­flokkun og flokkun landbúnaðarlands m.t.t. rækt­unar og annars landbúnaðar og úti­vistar.34  Markmið um landslagsmál er einnig  sett í stefnu um skógrækt sem var unnin á vegum umhverfisráðherra og gefin út af Skógræktinni árið 2013. Þar er lögð áhersla á að auka þekkingu á landslagsþáttum, vernda sérstætt landslag og nýta möguleika skógræktar til að fegra land með góðri hönnun og áætlanagerð í skógrækt.35 Þá segir í drögum að landsáætlun um skógrækt að mikilvægt sé að huga að landslags­heildum, sérstöku landslagi og jöðrum og línum í landslagi við val á landi og skipulag skógræktar.36

Í gildandi landsskipulagsstefnu er því beint til sveitarfélaga að huga sérstaklega að hættu á gróðureldum í skipulagi sínu, s.s. flóttaleiðum og bruna­­vörnum.37

L.  Stefna um skógarnytjar og verðmætasköpun

L.1 Atvinnustarfsemi tengd skógum aukist.

Hvatt verði til framleiðslu og sölu fjölbreyttra austfirskra skógar­afurða.

Hvatt verði til fjölbreytni í skógrækt og góðrar umhirðu sem stuðlar að góðri framleiðslu í skógunum og hámarkar árangur.

L.2 Nýsköpun í vinnslu skógarafurða aukist.

Stuðlað verði að nýsköpun og vöru­þróun úr öllum efnivið skóganna.

Stuðlað verði að aukinni þekkingu á skógrækt og skógarafurðum til að efla verðmætasköpun.

Stuðlað verði að samvinnu menntastofnana og skógræktarbænda með það að markmiði að efla þekkingu, nýsköpun og nýliðun í greininni.

L.3 Markaður fyrir skógarafurðir frá Austurlandi stækki.

Könnuð verði markaðstækifæri fyrir skógarafurðir frá Austurlandi. Sérstaklega verði horft til tækifæra sem samgöngutengingar veita.

Skógurinn og skógarafurðir verði áberandi í markaðs­setningu Austur­­lands.

Skýringar við stefnu um skógarnytjar og verðmætasköpun

Á næstu áratugum mun  vinnsla úr skógarafurðum Austurlands aukast og mikilvægt verður að styrkja þekkingu meðal þeirra sem stunda skógrækt, hlúa að verðmætasköpun, nýsköpun og gæðamálum í greininni og finna afurðum markað hérlendis og erlendis.38

Samkeppnisfær úrvinnsluiðnaður þarf að vera til staðar til að taka á móti því hráefni sem fellur til í skógum landsins og forsenda þess að hann geti orðið til er mikið og stöðugt framboð á timbri.39

Þrjár viðarvinnslur eru nú þegar með starfsemi á Austurlandi; á Hallormsstað, í Fljótsdal og á Eskifirði. Á Hallormsstað fer fram alhliða viðarvinnsla. Í Fljótsdal er unninn borðviður, plankar, klæðn­ingar og eldiviður og á Eskifirði eru fram­leiddir viðarkögglar, viðar­spænir og skyldar afurðir.40

Aukin eftirspurn er eftir timbri í byggingar­iðnaði en einnig er hægt að framleiða úr trjáviði lífrænt plast, vefnaðarvörur, lyf o.fl. Einnig eru aðrar nytjar úr skógum mögulegar, s.s. matvæli, bragðefni, ilmkjarnaolíur, hunang, jólatré, greinar og könglar.41 

Skógar á Íslandi hafa lengi verið vinsælir ferðamannastaðir, ekki síst Hallormsstaðaskógur. Samfara vinsældum tjaldferða og útihátíða hefur víða verið byggð upp þjónusta og ýmis konar aðstaða fyrir ferðafólk. Ferðaþjónustuaðilar nýta sér þá aðstöðu og munu geta gert í vaxandi mæli í framtíðinni eftir því sem skógur vex og dafnar.42

M.  Stefna um aðgengi og útivist í skógum

M.1 Útivistarmöguleikar íbúa og gesta í skógum Austurlands aukist.

Hvatt verði til ræktunar og umhirðu skóga í þágu útivistar.

Hvatt verði til að heilbrigðisgeirinn nýti útiveru í skógum sem með­ferðarúrræði.

Unnið verði að uppbyggingu göngu­stíga, áningarstaða og bílastæða til að auðvelda íbúum og gestum að njóta útivistar í skógum.

M.2 Skógrækt innan og í grennd við þéttbýli aukist.

Hvatt verði til ræktunar útivistarskóga, bæði innan og í jaðri þéttbýlisstaða.

Skýringar við stefnu um aðgengi og útivist í skógum

Skógar eru frábær útivistarsvæði. Þeir skapa gott skjól fyrir veðri og vindum og hafa jákvæð áhrif á líkamlega og and­lega heilsu. Þessi áhrif snúa einkum að öryggi gagnvart flóðum og mengun, ýta undir endurnæringu, slökun, streitu­losun, hreyfingu og samveru. Skógræktar­starf hefur einnig góð heilsu­farsleg áhrif og það er mikilvægt að almenningur geti notið skóganna á margvíslegan hátt.43

Fjórir þjóðskógar eru á Austurlandi: Arnaldsstaðaskógur í Fljótsdal, Hall­ormsstaðaskógur og Höfði á Héraði og Jórvík í Breiðdal. Í þjóðskógum hefur verið komið fyrir áningaraðstöðu, stígum, borðum og bekkjum, salernis­aðstöðu, tjaldsvæðum og merkingum á gönguleiðum, trjám og kennileitum.44 Þar er tækifæri til ýmis konar útiveru og umhverfismenntar en Skógræktin hefur útbúið gagnlegt fræðsluefni um  skóga.45

Skógar í grennd við þéttbýli henta vel fyrir útikennslu­stofur, sérstaklega þar sem hægt er að ganga eða hjóla að þeim.46 Tré og skóglendi í og við þéttbýli eru einnig til þess fallin að  fanga svifryk og bæta þannig loftgæði.47

 • 29 Drög að landsáætlun um skógrækt 2021-2025. Aðgerðaáætlun í loftslagsmálum.
 • 30 Drög að landsáætlun um skógrækt 2021-2025.
 • 31 Tillaga Skipulagsstofnunar að viðauka við landsskipulagsstefnu.
 • 32 Skýrsla Skógræktarinnar og LSE 2020.
 • 33 Drög að landsáætlun um skógrækt 2021-2025.
 • 34 Tillaga Skipulagsstofnunar að viðauka við landsskipulagsstefnu.
 • 35 Skógar á Íslandi - Stefna á 21. öld.
 • 36 Drög að landsáætlun um skógrækt 2021-2025.
 • 37 Landsskipulagsstefna 2015-2016.
 • 38 Skýrsla Skógræktarinnar og LSE 2020. Skógar á Íslandi - Stefna á 21. öld.
 • 39 Skógar á Íslandi - Stefna á 21. öld.
 • 40 Skýrsla Skógræktarinnar og LSE 2020.
 • 41 Skýrsla Skógræktarinnar og LSE 2020.
 • 42 Skýrsla Skógræktarinnar og LSE 2020.
 • 43 Lýðheilsa og skipulag. Drög að landsáætlun um skógrækt 2021-2025.
 • 44 Skýrsla Skógræktarinnar og LSE 2020.
 • 45 Skógræktin. Nám og fræðsla.
 • 46 Lýðheilsa og skipulag.
 • 47 Lýðheilsa og skipulag.