4.1 Framtíðarþróun atvinnulífs

Burðarstólpar efnahagslífs á Austurlandi verða styrktir og uppbygging atvinnugreina hefur sjálfbæra nýtingu auðlinda að leiðarljósi. Staðbundin þekking verður efld í þágu nýsköpunar.

H.  Stefna um lykiláherslur í atvinnuþróun

H.1 Vöxtur í atvinnulífi Austurlands byggist á sjálfbærri nýtingu fjölbreyttra auðlinda Austurlands  og út frá áherslum hringrásarhagkerfis.

Stuðlað verði að þróun umhverfis­vænna fyrirtækja og starfa sem byggja á auðlindum í umhverfi, samfélagi og menningu lands­hlutans.

Stuðlað verði að þróun starfsemi sem miðar að því að draga úr auðlinda­notkun, auka líftíma auðlinda og koma í veg fyrir að efni og hlutir hverfi úr hagkerfinu sem úrgangur.

Stuðlað verði að uppbyggingu græns orkugarðs á Austurlandi.

Hvatt verði til umhverfis- og gæðavottunar fyrirtækja sem nýta auðlindir lands, sjávar og strand­svæða.

H.2 Tækniþekking, verkkunn­átta og hugvit sem er til staðar á Austurlandi nýtist og styrkist og nýsköpun aukist.

Unnið verði yfirlit yfir mannauð Austurlands svo greina megi tækifæri til að virkja og byggja hann upp frekar. Höfð verði hliðsjón af tæknibreytingum sem kenndar eru við fjórðu iðnbyltinguna og snúa t.d. að gervigreind, líftækni og sjálfvirknivæðingu.

Stuðlað verði að auknu samstarfi á milli atvinnugreina svo þekking í þeim nýtist á sem flestum sviðum og skapi ný tækifæri.

Stuðlað verði að góðu aðgengi að framhalds- og háskólanámi, sem og lengri og styttri námsleiðum, einkum á sviði hornsteina atvinnu­lífsins og grunnþjónustu samfélags­ins.

Stuðlað verði að eflingu rannsókna á umhverfi, atvinnulífi, samfélagi og menningu Austurlands og miðlun niðurstaðna þeirra.

Stuðlað verði að fjölgun starfa í skapandi greinum með eflingu þeirra á öllum skólastigum, s.s.  tónlist, myndlist, sviðslist, kvikmyndagerð, dagskrárgerð, tölvuleikjagerð og hönnun hvers konar.

Sjá einnig 5. kafla um sterkt sam­félag.

H.3 Áhrif lista- og menningarlífs á atvinnulíf og búsetugæði skýrist og magnist.

Stuðlað verði að eflingu atvinnu­starfsemi á sviði lista.

Unnið verði að gagnkvæmum skilningi og viðurkenningu á sam­eiginlegum hagsmunum menn­ingar­lífs og atvinnulífs.

Stuðlað verði að rannsóknum  á mikilvægi menningar í atvinnulífi Austurlands.

Sjá einnig kafla 6.2 um listir og menn­ingu.

Skýringar við stefnu um lykiláherslur við atvinnuþróun

Auðlindir Austurlands og hringrásarhagkerfið

Auðlindir Austurlands er að finna í umhverfi, samfélagi, menningu og íbúum. Náttúruauðlindir eins og vatn, jarðvegur, jarðefni, orkulindir og lífríki lands og sjávar eru grund­völlur búsetu og í þeim liggja sóknarfæri. Ekki síst ef mannauður er efldur til að nýta þekkingu sína, taka frumkvæði og grípa tækifæri. Þá býr auður í landslagi, sögu og menningarlífi sem nýta má við vöruþróun og markaðssetningu.

Sé litið til framtíðar er mikilvægt að stuðla að hringrásarhagkerfi við nýtingu auðlinda. Í því felst m.a. að standa vörð um takmarkaðar auðlindir og draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Í kerfinu eru vörur endurnýttar og úrgangur tekinn til flokkunar og endurvinnslu til að halda  hráefnum í hringrás. Með eflingu hringrásarhagkerfis má búast við að ný störf skapist í viðgerðar­þjónustu og annarri þjónustu, meðhöndlun og endurvinnslu úrgangs, nýsköpun, hugviti og hönnun.1

Möguleikar til vistvænnar atvinnustarfsemi og nýsköpunar með grænni orku eru miklir á Austurlandi.2 Í undirbúningi er uppbygging á grænum orkugarði í Reyðarfirði þar sem stefnt er á að framleiða rafeldsneyti til að greiða fyrir orkuskiptum í sjávarútvegi, sjó- og landflutningum. Auk þess stendur til að kanna möguleika á framleiðslu á kolefnislausum áburði, endurnýtingu varma til húshitunar á Reyðarfirði og notkun súrefnis við landeldi á fiski.3

Tækni, hugvit og fjórða iðnbyltingin

Þær öru tæknibreytingar sem hafa verið í heiminum á liðnum áratugum og eru fyrirsjáanlegar í náinni framtíð, hafa verið kallaðar fjórða iðnbyltingin. Breytingarnar munu hafa áhrif á líf og störf íbúa Austurlands, eins og annars staðar. Hæfni mannauðs og samfélagsins alls, til að takast á við breytingarnar og nýta möguleika sem ný tækni veitir, eru forsenda hagfelldrar þróunar.4

Á Austurlandi hefur verið lögð áhersla á að efla tækniþekkingu,5 skapandi greinar,6 frumkvöðlastarf7 og nýsköpun8 og á næstu árum mun þurfa að beina sjónum enn frekar að þessum sviðum til að tryggja samkeppnishæfni lands­hlutans.9 Bæta þarf möguleika til framhalds- og háskólamenntunar, efla rannsóknir og þróun og stuðla að samvinnu atvinnu­greina til að skapa ný sóknarfæri.10 Sjá einnig kafla 5.2 um þekkingu og ný­sköpun.

Menningarlíf og atvinnulíf

Menningarlíf hefur víðtæk afleidd áhrif í efnahagslegu tilliti, m.a. í ferða­þjónustu, tæknigreinum, menntun, verslun og þjónustu. Blómlegt menningarlíf er því mikilvægur hluti af atvinnulífi og búsetugæðum svæðis og reiknað er með að það vegi enn þyngra í framtíðinni. Treysta þarf grundvöll fjölbreyttrar menningarstarfsemi og og vinna verður að auknum og gagnkvæmum skilningi á sameiginlegum hagsmunum menn­­­ingar­lífs og atvinnulífs.11

I. Stefna um hornsteina atvinnulífs

I.1 Hefðbundnir hornsteinar atvinnulífs Austurlands; sjávarútvegur, landbúnaður og iðnaður viðhaldist og styrkist.

Sjávarútvegur viðhaldist sem lykilatvinnugrein landshlutans með því að:

 • Búið verði vel að útgerð og vinnslu með góðum atvinnu­svæðum, hafnarmannvirkjum og öðrum innviðum.
 • Stuðlað verði að aukinni fullvinnslu, nýsköpun og sjálfbærri nýtingu auðlinda hafsins og leitað verði nýrra tegunda, í veiðum og ræktun, bæði til manneldis og fyrir iðnaðarframleiðslu.
 • Hvatt verði og stutt við rannsóknir á lífríki sjávar við Austfirði og mögulegum breyt­­ingum á því vegna loftslagsbreytinga.
 • Stuðlað verði að möguleikum smábáta til að sækja afla á mið nálægt landi.
 • Unnið verði að því að sveitarfélög hafi skipulagsvald yfir víkum og fjörðum og forræði yfir gjaldtöku hins opinbera af sjávarútvegi og fiskeldi.

Landbúnaður viðhaldist sem lykilatvinnugrein landshlutans með því að:

 • Staðið verði vörð um þau náttúrugæði sem landbúnaðarframleiðslan byggir á, s.s. jarðveg og gott ræktarland, beitarlönd og vatn.
 • Landbúnaðarland verði flokkað með tilliti til ræktunarskilyrða til grundvallar landnotkunarskipulagi og ákvarðana um tegund ræktunar, með það að markmiði vernda land sem er gott til ræktunar matvæla og fóðurs.12
 • Stuðlað verði að aukinni fjölbreytni í landbúnaði, s.s. með frekari ræktun matjurta, dýra og fóðurs, skógrækt og mögulega ræktunar orkujurta og lífeldsneytis.

Iðnaður viðhaldist sem lykil­atvinnugrein landshlutans með því að:

 • Stuðla að því að álframleiðsla verði áfram ein undirstaða efnahagslífs landshlutans.
 • Búið verði vel að iðnaðarstarfsemi með góðum atvinnu­svæðum, höfnum og öðrum innviðum.

I.2 Nýrri hornsteinar styrkist á næstu áratugum til að efla atvinnulíf Austurlands, treysta  búsetugæði og aðdráttarafl landshlutans og til að takast á við hnattrænar umhverfisbreytingar.

Matvælaframleiðsla eflist, sjá kafla 4.2.

Skógrækt vaxi, sjá kafla 4.3.

Ferðaþjónusta styrkist, sjá kafla 4.4.

Skýringar við stefnu um hornsteina atvinnulífs

Sjávarútvegur

Sjávarútvegsfyrirtæki á Austfjörðum eru burðarásar atvinnulífs landshlut­ans og meðal þeirra stærstu á Íslandi. Bæði sveitarfélög og ríki hafa umtalsverðar tekjur af þeim sem skilar sér aftur í samfélagið. Sjálfbær og ábyrg nýting auðugra fiskimiða við Austfirði er því lykilmál fyrir svæðið. Hnattrænar umhverfisbreytingar af völdum hlýn­­unar loftslags  kunna að hafa áhrif á göngu fiski­stofna í framtíðinni og eru rannsóknir á auðlindum hafsins því mikilvægar.

Íslenskur sjávarútvegur hefur sterka alþjóðlega samkeppnisstöðu, m.a. vegna mikillar tæknivæðingar á liðnum árum. Það hefur hins vegar þýtt fækkun starfa í fiskvinnslu og hliðar­greinum hennar og líklegt er að sú þróun haldi áfram. Mikill áhugi er því á að efla fullvinnslu sjávarfangs á Austurlandi og þannig ýta undir verðmætasköpun og fjölbreytni starfa. Einnig er áhugi fyrir því að aðrar matvæla­greinar geti samnýtt þá tækni og kunnáttu sem skapast hefur í sjávarútvegi.

Sveitarfélögin styðja við sjávarútveg landshlutans t.d. með nægu rými til athafna og góðum hafnarmannvirkjum og öðrum samgöngumannvirkjum.    

Landbúnaður

Landbúnaður er mikilvæg grunnstoð í atvinnulífi Austurlands og vegur sauðfjárbúskapur þar langmest en kúabúskapur hefur einnig talsvert vægi og nokkur bú eru með nautgripi og varphænsni.13 Þá hefur skógrækt verið mikilvæg tegund búskapar á Austur­landi og á eftir að þróast í fullburða atvinnugrein á næstu áratugum.14 Enn fremur er á Austurlandi mikil reynsla og þekking í lífrænni ræktun trjáa og matjurta.

Framleiðslu landbúnaðarafurða er stjórnað í gegnum búvörusamninga á milli íslenska ríkisins og Bændasamtaka Íslands. Samningarnir eiga að tryggja nægt framboð á landbúnaðarvörum, aukna verðmætasköpun og hag­ræðingu í framleiðslu. Í seinni tíð hefur verið aukin áhersla á sjálfbærni og að ákveðnar búgreinar nái að kolefnis­jafna sig fyrir árið 2040.15 Önnur áskorun landbúnaðar er sjálfbær nýting beitar- og ræktunarlands og hefur íslenska ríkið útbúið leiðbeiningar um flokkun land-
búnaðarlands, sem sveitarfélögum er ætlað að fylgja eftir. Þar er lögð áhersla á flokkun lands sem nýtist til ræktunar á matvælum og fóðri.16

Miklar tæknibreytingar hafa átt sér stað í landbúnaði með tilkomu sjálfvirknivæðingar og nákvæmnisbúskapar  og þessar breytingar munu fækka og breyta störfum í landbúnaði. Því er mikilvægt að leita leiða til að styðja við aukna fjölbreytni í búskap og almennu atvinnulífi sveita. Á vegum stjórnvalda stendur t.d. yfir greining á möguleikum til að auka ræktun orkujurta og framleiðslu lífeldsneytis hér á landi.17

Landbúnaðarkerfið þarf í auknum mæli að vera í stakk búið til að aðlagast breyttu neyslumynstri og miðla upplýsingum um uppruna og innihald til neytenda.18 

Iðnaður

Á Austurlandi varð mikil bylting í atvinnulífi upp úr síðustu aldamótum með tilkomu Kárahnjúkavirkjunar og álvers Alcoa Fjarðaáls á Reyðarfirði. Ný sérhæfð störf sköpuðust auk allra þeirra afleiddu þjónustustarfa sem verða til við slíka uppbyggingu. Fylgst hefur verið með þeirri þróun í gegnum sjálfbærniverkefni Alcoa Fjarðaáls og Landsvirkjunar, sem Austurbrú hefur umsjón með.19

Fullyrða má að austfirskur iðnaður skipti miklu máli fyrir þjóðarhag því um fjórðungur af útflutningstekjum Íslands fer um hafnirnar í Fjarða­byggð.20 Þetta vægi gæti aukist enn frekar með áframvinnslu áls á svæðinu en mögu­leikar á slíkri vinnslu hafa verið til skoðunar í gegnum árin.21

Í tengslum við aðra hornsteina atvinnu­lífsins, sjávarútveg og landbúnað, hefur byggst upp mikil iðnaðar- og tækni­þekking á Austurlandi. Í þekkingu búa sóknarfæri, t.d. með yfirfærslu kunnátt­unnar yfir í aðrar greinar.

Laða þarf að hæft og áhugasamt fólk til vinnu í iðnfyrirtækjum landshlutans en það hefur reynst erfitt á liðnum árum. Sú áskorun kallar á að styrkja tengsl á milli skólakerfis og iðnaðarins og stuðla að góðum atvinnu- og búsetuaðstæðum, þannig að lífsgæði aukist.22

 • 1 Stjórnarráð Íslands: Hringrásarhagkerfið.
 • 2 Grænir iðngarðar - tækifæri fyrir Ísland.
 • 3 Landsvirkjun 2021: Þróunarferli græns orkugarðs á Reyðarfirði.
 • 4 Stjórnarráð Íslands 2019: Ísland og fjórða iðnbyltingin.
 • 5 Austurbrú 2014: Samstarf um þekkingarsköpun í áliðnaði á Austurlandi.
 • 6 Austurbrú 2014: Mikil hvatning fyrir skapandi greinar á Austurlandi.
 • 7 Hacking Austurland.
 • 8 Austurbrú: Atvinnuþróun og nýsköpun.
 • 9 Nýsköpunarlandið Ísland.
 • 10 Austurbrú 2014: Mikil hvatning fyrir skapandi greinar á Austurlandi.
 • 11 Menningarstefna stjórnvalda 2013.
 • 12 Sbr. Leiðbeiningar um flokkun landbúnaðarlands með tilliti til hæfni til ræktunar. Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið 2021.
 • 13 Austurland - Stöðugreining 2019.
 • 14 Drög að Landsáætlun í skógrækt 2021-2025.
 • 15 Stjórnarráðið. Búvörusamningar.
 • 16 Leiðbeiningar um flokkun landbúnaðarlands með tilliti til hæfni til ræktunar.
 • 17 Tillaga að viðauka við landsskipulagsstefnu.
 • 18 Matvælastefna Íslands.
 • 19 Sjálfbærniverkefni á Austurlandi. Álver Alcoa Fjarðaáls.
 • 20 Austurbrú 2016: Iðnaður og þróun byggðar.
 • 21 Austurbrú 2014: Samráðsfundur um áframvinnslu áls á Austurlandi.
 • 22 Austurbrú 2016: Iðnaður og þróun byggðar.