5.3 Grunnþjónusta og heilbrigði

Heilbrigðisþjónusta og önnur grunnþjónusta í landshlutanum verður öflug og framsækin. Stafrænum lausnum verður beitt til að leysa verkefni og líkamleg og andleg heilsa íbúa verður metnaðarmál á Austurlandi.

U.  Stefna um grunnþjónustu

U.1 Bætt aðgengi að góðri grunnþjónustu.

Stuðlað verði að því að grunn­þjónusta sé veitt sem næst íbúum og að jafnaði ekki í meira en 60 mínútna akstursfjarlægð fyrir íbúa svæðisins. Fjarþjónusta verði í boði þar sem það næst ekki.

Við staðsetningu þjónustu verði tekið tillit til byggðamynsturs og stærðar þjónustukjarna.

Leitað verði leiða til að styðja við fjölkjarnasamfélög með viðeigandi dreifingu og samnýtingu þjónustu.

U.2 Stafrænar og vistvænar lausnir ein­kenni opinbera þjónustu á Austurlandi.

Hvatt verði til þess að sveitarfélög og stofnanir á Austurlandi tileinki sér stafrænar lausnir í opinberri þjónustu við íbúa. Fjármagn til þess verði tryggt og mannauður efldur.

Stuðlað verði að sjálfbæru verklagi við opinber innkaup.

U.3 Heilbrigðisþjónusta í landshlutanum styrkist.

Stuðlað verði að því að Heilbrigðisstofnun Austurlands  geti sinnt lögbundinni þjónustu sem best, tekist á við óvænt áföll og unnið að forvörnum og eflingu geðheilsu jafnt sem líkamlegrar heilsu íbúa.

Lögð verði áhersla á að festa í sessi og efla enn frekar samstarf og samráð á milli sveitarfélaga lands­hlutans og Heilbrigðisstofnunar Austurlands.

Stuðlað verði að því að efla umdæmissjúkrahús Austurlands.

Stuðlað verði að því að styrkja heilsugæslustöðvar sem lykilaðila í veitingu nærþjónustu, forvörnum og heilsueflingu.

Stuðlað verði að uppbyggingu hjúkrunarheimila í samræmi við þarfir.

Stuðlað verði að bættum sam­göngum og þróun snjallþjónustu til að bæta aðgengi að heilbrigðis­þjónustu.

Stuðlað verði að námsmöguleikum á sviðum heilbrigðis- og annarrar grunnþjónustu.

Skýringar við stefnu um grunnþjónustu

Til grunnþjónustu telst almennt sú opinbera þjónusta sem ríki eða sveitar­félögum er skylt að veita, s.s. heilbrigðis­þjónusta, menntun, löggæsla, þjónusta við aldraða, þjónusta við fatlað fólk og félagsþjónusta. Samgöngur og fjarskipti falla einnig þarna undir en um þá þætti er fjallað í kaflanum Góð heimkynni, en gott búsetuumhverfi hjálpar til við að laða að starfsfólk.

Framtíðarsýn Byggðaáætlunar 2018–2024 er að í öllum landshlutum verði blómlegar byggðir og öflugir byggða­kjarnar með sem jöfnustu aðgengi að grunnþjónustu sem næst nær­samfélagi, óháð efnahag og búsetu.18 Þessi sýn rímar vel við áherslur Austurlands í byggðamálum og vill landshlutinn jafn­framt vera leiðandi á sviði staf­rænna lausna í opinberri þjónustu. Það á við um alla grunnþjónustu en sérstaklega þarf að horfa til heilbrigðisþjónustu svo takast megi að bæta allar hliðar lýð­heilsu, bregðast við öldrun íbúa og tryggja megi sem best aðgengi að þjónustu óháð búsetu.

Heilbrigðisstofnun Austurlands rekur umdæmissjúkrahús í Neskaupstað, heilsugæslustöðvar í stærri þéttbýlis­kjörnunum og ýmsa stoðþjónustu og heilsugæslusel á minni stöðunum, auk hjúkrunarheimila. Yfir 400 manns starfa hjá stofnuninni19 og er hún því afar mikilvæg fyrir atvinnulíf lands­hlutans, um leið og þjónustan er þýðingar­mikill hluti af búsetugæðum  hans. Heilsugæslustöðvar gegna lykilhlutverki sem nærþjónusta en í svo stórum landshluta, sem er langt frá höfuðborginni, er gott aðgengi að sérfræðiþjónustu einnig veigamikið. Með tíð og tíma mun fjarheilbrigðisþjónusta nýtast meira í þessu tilliti20 en tryggja þarf fjármagn og mannauð á hverjum tíma til að heilbrigðisstofnunin geti gegnt lögbundnu hlutverki sínu.21

Samstarf sveitarfélaga Austurlands við Heilbrigðisstofnunina er mikilvægt í ljósi þess hve lýðheilsa er flókið og margslungið fyrirbæri en einnig vegna þeirrar óhjákvæmilegu skörunar sem er í mörg­um tilvikum á milli félags­þjónustu á vegum sveitarfélaga og heima­hjúkrunar á vegum stofnunarinnar.

Ú.  Stefna um heilsueflingu

Ú.1 Líkamleg, andleg og félagsleg vellíðan íbúa Austurlands eykst.

Lögð verði áhersla á að skólar, vinnustaðir og stofnanir leggi sitt af mörkum til að auka hreyfingu og útivist, bæta mataræði og efla geðrækt íbúa svæðisins.

Hvatt verði til þátttöku í heilsu­eflingarverkefnum á lands- og svæðisvísu.

Hugað verði að lýðheilsu og mögulegum áhrifum á hana við alla stefnumótun og skipulagsgerð.

Heilsuhjólið, meginstoðir heilsuhugtaksins samkvæmt hugmyndafræði Jákvæðrar heilsu.22

Skýringar við stefnu um heilsueflingu

Þrjú af fjórum sveitarfélögum á Austur­landi eru þátttakendur í verkefni Land­læknis um Heilsueflandi samfélag23 og í aðgerðaáætlun velferðarráðuneytis frá 2016 er markmið um að öll sveitar­félög verði heilsueflandi.24 Megin­markmið Heilsueflandi samfélags er að styðja samfélög í að skapa umhverfi og aðstæður sem stuðla að heilbrigðum lifnaðarháttum, heilsu og vellíðan allra íbúa.

Heilbrigðisstofnun Austurlands, fyrst íslenskra stofnana og í samstarfi við sveitarfélög í landshlutanum, hefur hafið innleiðingu á verkefni sem ber heitið Jákvæð heilsa. Verkefnið byggir á hollenskri aðferðafræði og er í samvinnu við Institute for Positive Health. Inntak Jákvæðrar heilsu er að horfa meira á úr hverju vellíðan og heilbrigði spretta, fremur en að horfa á þær takmarkanir sem sjúkdómar og skerðingar setja fólki.

Meginstoðir heilsuhugaksins samkvæmt nálguninni eru: Andleg heilsa, tilgangur í lífinu, dagleg virkni, félagsleg þátttaka, lífsgæði og líkamleg geta. Út frá mati á þessum þáttum  er einstaklingum vísað á viðeigandi úrræði, sem oft eru hvorki frekari læknismeðferð né lyfjagjöf.25

Bæði verkefnin, Heilsueflandi samfélag og Jákvæð heilsa, hafa því líkamlega, andlega og félagslega vellíðan íbúa að markmiði en margt getur hafa áhrif á heilsu, s.s. húsnæði, öryggi, hreyfing, næring, samvera, samskipti, hvíld og endurnæring. Þá geta möguleikar til þátttöku í samfélaginu og sterk sam­sömun íbúa við sinn stað, landslag, sögu, menningu og samskipti haft mikið að segja.26 Stjórnvöld geta nýtt ýmsar leiðir til að hafa áhrif framangreinda þætti í gegnum stefnumótun, aðgerðir og ákvarðanatöku á öllum sviðum samfélagsins.27

Á sviði skipulagsmála er sérstök ástæða til að horfa til þess hvernig megi móta manngert umhverfi og bæta aðgengi að náttúrulegu umhverfi.28 Í tillögu Skipulagsstofnunar að viðauka við landsskipulagsstefnu (2021) er því beint til sveitarfélaga að horfa til allra aldurs-
og getuhópa og beita skipulagi sem styður við  heilsuvæna ferðamáta, hreyfingu í daglegu lífi, útivist í nánd við náttúru, fjölbreytt húsnæði, heilnæmt og öruggt umhverfi og tækifæri til áhrifa á mótun nærumhverfis.29 Slíkar skipulags­áherslur geta stutt við lýðheilsu­starf skóla og vinnustaða.30

Nálgun verkefnanna tveggja um heilsu­eflingu og jákvæða heilsu, er brýn í nútímasamfélagi, m.a. þar sem þeir aðilar sem ábyrgir eru fyrir og veita heilbrigðis-, félags- og skólaþjónustu og fara með skipulagsmál geta með útfærslu sinni á viðkomandi sviði ýmist viðhaldið, minnkað eða aukið á þröskulda og hindranir fyrir fólk.

 • 17 Þjónustukort Byggðastofnunar.
 • 18 Þingsályktun um stefnumótandi byggðaáætlun fyrir árin 2018–2024.
 • 19 Heilbrigðisstofnun Austurlands.
 • 20 Byggðaáætlun 2018-2024.
 • 21 Ályktanir haustþings SSA 2019.
 • 22 Institute for Positive Health, www.iph.nl
 • 23 Embætti landlæknis: Heilsueflandi samfélag.
 • 24 Lýðheilsustefna og aðgerðaáætlun um heilsueflandi samfélag.
 • 25 HSA. Jákvæð heilsa og heilsuhjólið. Umsögn HSA um kynningartillögu svæðisskipulags.
 • 26 Heilsueflandi Austurland.
 • 27 Lýðheilsa og skipulag.
 • 28 Tillaga Skipulagsstofnunar að viðauka við landsskipulagsstefnu.
 • 29 Heilsueflandi, vettvangur fyrir lýðheilsustarf í sveitarfélögum, skólum og vinnustöðum.