4.4 Ferðaþjónusta
Austurland verður heilsársáfangastaður sem höfðar jafnt til heimamanna og gesta. Hann byggist á öflugu samgöngukerfi og ferðaþjónustu í hæsta gæðaflokki þar sem auðlindir umhverfis, samfélags og menningar eru nýttar. Vöruþróun og markaðssetning landshlutans hefur sérkenni Austurlands sem leiðarljós.
N. Stefna um samfélag og gesti
N.1 Austurland þróist sem sterkur og sjálfbær áfangastaður þar sem ferðaþjónusta dafnar árið um kring.
Verkefni áfangastaðastofu landshlutans verði efld til að styðja við ferðaþjónustuna, stuðla að samstarfi innan greinarinnar og við aðrar greinar og til að gæta þess að greinin þróist í takt við gildi og vilja heimamanna.
Áfangastaðaáætlun Austurlands gegni áfram lykilhlutverki í að skilgreina sameiginlegar áherslur ferðaþjónustugeirans og samfélagsins, setja fram markmið og forgangsraða verkefnum til að vinna að þeim.
Svæðisheitið Austurland styrkist sem vörumerki landshlutans eins og það er skilgreint í áfangastaðaáætlun Austurlands.
Rannsóknir á ferðaþjónustu á Austurlandi verði efldar og niðurstöður þeirra nýttar við frekari stefnumótun og áætlanagerð.
N.2 Austurland styrkist sem áfangastaður, fyrir íbúa jafnt sem gesti.
Í öllu skipulagi verði hugað að þörfum og væntingum íbúa, sem og gesta.
Áhersla verði lögð á að svara væntingum og þörfum markhópa sem skilgreindir eru í áfangastaðaáætlun hverju sinni.
Skýringar við stefnu um samfélag og gesti
Ferðaþjónusta er stærsta atvinnugreinin á heimsvísu og sú sem hefur vaxið hraðast á Íslandi á liðnum áratugum. Í þeirri þróun hafa falist áskoranir og tækifæri sem Austurland hefur greint og gripið með mótun áfangastaðarins Austurlands.48
Til að skapa ramma fyrir þróun áfangastaðarins hefur verið sett fram áfangastaðaáætlun í samráði við íbúa og hagsmunaaðila.49 Áætlunin hefur sjálfbæra og ábyrga ferðaþjónustu að meginmarkmiði en í því felst að framgangur í greininni taki mið af umhverfis-, efnahags- og
samfélagslegum sjónarmiðum. Út frá þeim sjónarhóli er lögð rík áhersla á að áhrif á búsetugæði Austurlands verði jákvæð, s.s. með atvinnusköpun, vöruþróun, menningarviðburðum, umhverfisvernd, landslagsmótun og mannvirkjagerð, sem og uppbyggingu innviða sem nýtist jafnt íbúum sem gestum.
Í áfangastaðaáætluninni er lögð rík áhersla á samstarf ferðaþjónustugeirans, annarra geira og samfélagsins. Sérstaklega hefur verið dregið fram að styrkja megi tengsl ferðaþjónustu og landbúnaðar. Í því samhengi hefur skilgreining markhópa í áfangastaðaáætlun hlutverki að gegna, sem og skilgreining á þeirri upplifun sem stefnt er á að bjóða gestum upp á.
Áfangastaðaáætlun er unnin til þriggja ára í senn og því er mikilvægt að festa framtíðarsýn hennar í langtímaáætlun og setja hana í samhengi við stefnu landshlutans um aðrar atvinnugreinar og málaflokka sveitarfélaganna, eins og gert er í þessu svæðisskipulagi.
O. Stefna um auðlindir og inniviði ferðaþjónustunnar
O.1 Auðlindir ferðaþjónustunnar sem felast í náttúru, landslagi, minjum, söfnum, menningarmiðstöðvum og menningu svæðisins nýtist til verðmætasköpunar.
Skipulag ferðaþjónustunnar miði að því að dreifa ferðamannaumferð sem víðast, til að draga úr álagi á einstaka staði og til að allt svæðið njóti góðs af.
Haft verði gott samráð við landeigendur og íbúa við skipulagsgerð til að samræma landnotkun og starfsemi og koma í veg fyrir hagsmunaárekstra.
Fylgst verði með álagi á einstaka staði svo hægt verði að bregðast við í tíma.
O.2 Sérkenni landslags nýtist til að draga fram og byggja upp fjölbreytta möguleika til að upplifa ólíkar hliðar Austurlands.
Ferðamöguleikar og saga byggð á fjörðum, héraði og hálendi verði dregin sérstaklega fram í markaðssetningu, við skipulag ferðaleiða og áfangastaða (sjá kafla 6.1.1 og 6.1.2) og við staðarmótun (sjá kafla 3.3 og 6.1.3).
O.3 Samgöngukerfi ýti stoðum undir heilsársáfangastað.
Viðhald og umhirða vegakerfis tryggi öruggan akstur og aðgengi að helstu ferðamannastöðum á öllum árstíðum.
Skýringar við stefnu um auðlindir og innviði ferðaþjónustunnar
Á ferð um Austurland kemst ferðalangur í margs konar snertingu við staði, landslag, þjónustu, viðburði, vörur og athafnir sem til samans skapa upplifun af svæðinu, sem og minningar og framtíðarvæntingar. Það er upplifun af þessum helstu snertiflötum sem hefur áhrif á hvort gestir koma aftur og hvetja aðra til að heimsækja svæðið. Með því að vinna markvisst með snertifletina í gegnum áfangastaðaáætlun, skipulagsáætlanir og aðrar áætlanir sveitarfélaganna má stuðla að jákvæðri upplifun gesta.
Náttúra Austurlands er kjarninn í upplifun af svæðinu og um leið stór hluti búsetugæða landshlutans og einn aðalgrundvöllur ferðaþjónustunnar. Um þessa auðlind þarf því að standa vörð samtímis því að hún er nýtt til atvinnu- og vöruþróunar, útivistar og sköpunar.
Við þróun ferðaþjónustu er tækifæri til að byggja á sérkennum náttúru og bjóða upp á upplifun sem er ævintýri líkust. Fjölbreytt landslag og lífríki hálendis, héraðs og fjarða hefur mikið aðdráttarafl.
Sveitarfélög á Austurlandi hafa þegar hafið þróun ferðaleiða og áfangastaða og hyggjast halda áfram á þeirri braut. Áhersla er lögð á að dreifa umferð ferðafólks um allan landshlutann, bæði til að forðast ofálag á einstaka staði og til að styðja við uppbyggingu ferðaþjónustu á öllu svæðinu (sjá 6. kafla). Öruggir innviðir og góðar upplýsingar fyrir gesti er hluti af þessari viðleitni og lykilatriði er að ferðafólk komist auðveldlega til Austurlands, hvort heldur sem er með flugi, á sjó eða landi.
Gagnasöfn og fræðastarf um menningu, lífríki og landslag Austurlands, þ.m.t. örnefnaskráning, eru mikilvægur grunnur um sérkenni og sögu landshlutans. Þær upplýsingar geta skapað hugmyndir sem verða að nýjum vörum eða nýrri afþreyingu.
Ó. Stefna um vörur og þjónustugæði
Ó.1 Sérkenni Austurlands nýtist æ meira í vöruþróun og markaðssetningu.
Settar verði fram leiðbeiningar um hvernig nýta megi sérkenni Austurlands í náttúru og menningu í ferðaþjónustu, s.s. á sviði af þreyingar, gistingar, veitinga og handverks.
Fyrirtæki verði hvött til að nýta sér leiðbeiningarnar og þau studd við vöruþróun sína.
Ó.2 Unnið verði að því að styrkja upplifanir og aðstöðu þar sem náttúran er í forgrunni.
Unnið verði með áherslur sem skilgreindar eru í áfangastaðaáætlun hverju sinni, t.d. leiðangra, mat, útivist, sköpun og menningu.
Ó.3 Unnið verði að því að styrkja og þróa árstíðabundnar upplifanir.
Unnið verði með áherslur sem skilgreindar eru í áfangastaðaáætlun hverju sinni.
Ó.4 Ferðaþjónusta á Austurlandi einkennist af fagmennsku og gæðum.
Fyrirtæki í ferðaþjónustu verði hvött til að taka þátt í gæða- og umhverfisvottunarkerfum.
Stutt verði við aukna hæfni starfsfólks í ferðaþjónustu.
Skýringar við stefnu um vörur og þjónustugæði
Ferðaþjónusta snýst einkum um gistingu, veitingar og afþreyingu. Tengdar henni eru ýmsar framleiðslugreinar sem búa til matvörur, handverk og annað sem ferðalangar hafa áhuga á að skoða, kaupa eða neyta. Söfn og aðrar menningarstofnanir, ásamt skapandi greinum skipta miklu máli í þessu samhengi, sem og nýting hráefna Austurlands.
Það er landshlutanum í hag að gestir upplifi að svo margt sé í boði allan ársins hring að þá langi til að dvelja lengi og koma aftur. Góðar flugsamgöngur innanlands og til annarra landa eru lykillinn að því að draga úr árstíðabundnum sveiflum í umferð ferðafólks og í uppbyggingu Austurlands sem heilsársáfangastaðar.