5.2 Þekking og nýsköpun
Austurland eflist sem þekkingar- og nýsköpunarsamfélag og aðgangur austfirskra sprota að fjármagni eykst. Möguleikum til náms á öllum skólastigum fjölgar og skapandi hugsun, forvitni og vilji til nýsköpunar einkennir starf menntastofnana í landshlutanum.
S. Stefna um nám og nýsköpun
S.1 Möguleikum fjölgi til að stunda grunn-, framhalds- og háskólanám óháð búsetu.
Tryggt verði gott aðgengi að námi á öllum skólastigum.
Unnið verði að því að efla stað- og fjarnám á háskólastigi, einkum í greinum sem tengjast hefðbundnum og nýjum hornsteinum atvinnulífsins, heilbrigðisþjónustu og annarri grunnþjónustu.
Stuðlað verði að samvinnu menntastofnana til að efla námsmöguleika.
S.2 Áhersla á þekkingarleit, skapandi hugsun og nýsköpun einkenni starf menntastofnana landshlutans.
Hvatt verði til þess að skólar og menntastofnanir tileinki sér nýsköpunarhugarfar, bæði í kennslu og vali á námsefni.
Unnið verði að því að gera gögn um umhverfi, atvinnulíf, samfélag og menningu Austurlands aðgengileg á vef og í kortasjám og hvatt verði til notkunar þeirra í kennslu og rannsóknum.
Hvatt verði til eflingar iðngreina og skapandi greina í grunn- og framhaldsskólum, hvort heldur í stað- eða fjarnámi.
S.3 Samfélag nemenda í framhaldsnámi styrkist.
Stuðlað verði að sterku skólasamfélagi nemenda í stað- og fjarnámi, með góðri aðstöðu og umgjörð náms og félagsstarfs.
S.4 Nýsköpunarsamfélag styrkist.
Boðið verði upp á samvinnurými fyrir einstaklinga og sprotafyrirtæki í þéttbýliskjörnum og í dreifbýli þar sem möguleikar á samstarfi geta skapast.
Skýringar við stefnu um nám og nýsköpun
Nýsköpun á öllum sviðum samfélagsins er forsenda vaxtar og eflingar Austurlands og lykillinn að því að fást við áskoranir komandi áratuga. Menntastofnanir Austurlands gegna stóru hlutverki í þessu tilliti. Mikilvæg skref voru tekin á árinu 2020 þegar undirritaður var samningur á milli Austurbrúar og menntamálaráðuneytisins um undirbúning stofnunar háskólaútibús og kennslu á háskólastigi.8 Haustið 2021 hófst svo undirbúningsnám í verk-, tækni- og tölvunarfræði og er frekari uppbygging fyrirhuguð.9
Auk náms á háskólastigi skipta framhaldsskólar Austurlands miklu máli. Tveir þeirra, Verkmenntaskóli Austurlands í Neskaupstað (VA) og Menntaskólinn á Egilsstöðum (ME), bjóða upp á nám til stúdentsprófs. Báðir skólar leggja grunn að frekara námi nemenda sinna, efla nýsköpunargetu í landshlutanum og leggja áherslu á góð tengsl við atvinnulífið, hvor á sinn hátt.
Í skólunum er val um nokkrar námslínur og starfsbrautir, auk þess sem iðnnám hefur um árabil verið í boði í VA.10 Þá leggja skólarnir mikla áherslu á nýsköpun. Svo dæmi séu tekin er í VA sérstök nýsköpunarbraut og Fab Lab-smiðja11 í verkkennsluhluta skólans sem öllum er opin. Í ME er tæknismiðja sem gerir nemendur hæfari í sköpun og hönnun. Tilgangurinn er meðal annars að auka áhuga á frekara námi í listum, hönnun og tækni. Auk þess stefnir skólinn á að auka framboð náms sem hefur sterka tengingu við atvinnulífið.12
Þriðji skólinn á framhaldsskólastigi er Hallormsstaðaskóli. Þar er í boði verk- og bóklegt nám í sjálfbærni og sköpun þar sem fengist er við viðfangsefni nútímans með lærdóm fyrri kynslóða í farteskinu. Skólinn hefur staðið fyrir fjölda opinna vinnustofa og námskeiða með sérfræðingum skólans sem hafa leitt til atvinnusköpunar og betri nýtingar á afurðum. Þá hefur tilraunaeldhús skólans veitt frumkvöðlum í vöruþróun tækifæri til nýtingar vottaðs eldhúsrýmis skólans.13
Lýðháskóli LungA á Seyðisfirði býður upp á tilraunakennt listnám. Listrænn skilningur nemenda er þjálfaður og lögð rækt við að auka listræna færni, næmni og hæfni þannig að nemendur fái gott veganesti til frekara náms.14 Vert er að taka fram að við alla þá skóla sem nefndir hafa verið til sögunnar eru heimavistir.
Á Austurlandi hefur verið lögð rík áhersla á tengsl allra skólastiga við atvinnulífið, s.s. með starfskynningum og vinnustaðanámi á yngri og eldri stigum. Í leikskólum hefur einnig verið stunduð nýsköpunarhugsun, t.a.m. í gegnum svonefnt „grænfánaverkefni“. Áhersla á tengsl skóla og atvinnulífs er jafnframt rík í símenntunar- og þekkingarstarfi Austurbrúar sem býður upp á fjölbreytt námskeið og lengri námsleiðir, námsráðgjöf, raunfærnimat og þjónustu við háskólanema. Í þessu samhengi mætti líka nefna árlegan Tæknidag fjölskyldunnar, sem VA og Austurbrú standa fyrir, þar sem sjónum er beint að tækni, vísindum og nýsköpun.
Þá er þörf á að styrkja möguleika til grunnmenntunar heilbrigðisstarfsfólks til að tryggja mönnun heilbrigðisþjónustunnar. Heilbrigðisstofnun Austurlands gegnir þar mikilvægu hlutverki en stofnunin hefur um langt skeið tekið þátt í menntun tiltekinna heilbrigðisfagmanna, einkum lækna, sjúkraliða og hjúkrunarfræðinga, sem hefur hjálpað til við nýliðun og afleysingar. Mikilvægt er að styrkja sí- og endurmenntun heilbrigðisstarfsfólks vegna fjarlægðar landshlutans frá Reykjavík og í ljósi alþjóðlegrar samkeppni um fagfólk.15
T. Stefna um umhverfi nýsköpunar
T.1 Nýsköpunargeta samfélagsins styrkist.
Stuðlað verði að auknu samstarfi á milli menntastofnana og fyrirtækja svæðisins, t.d. með því að setja á fót vettvang eða hugmyndabanka um lausnir á helstu áskorunum Austurlands.
Mótuð verði stefna um stuðning sveitarfélaganna, menntastofnana og fyrirtækja á svæðinu við nýsköpun, sprotafyrirtæki og skapandi greinar.
Tryggt verði að sprotafyrirtæki og frumkvöðlar hafi greiðan aðgang að faglegri ráðgjöf á sviði nýsköpunar.
Fyrirtæki og stofnanir á Austurlandi verði hvött til að nýta þekkingu og mannauð sem er til staðar á svæðinu.
T.2 Aðgengi sprotafyrirtækja og einstaklinga að sjóðum batni.
Sjóðir verði hvattir til að taka aukið tillit til svæðisbundinna aðstæðna og viðfangsefna og til að fjármagna verkefni til lengri tíma.
Hvatt verði til að stofnaðir verði landshlutabundnir nýsköpunarsjóðir.
Sprotafyrirtæki og einstaklingar á svæðinu verði hvattir til að sækja um styrki.
T.3 Markaður fyrir austfirskt hugvit stækki.
Lögð verði áhersla á að stækka heimavöll austfirskra nýsköpunarfyrirtækja þannig að tækifæri til markaðssetningar og fjármögnunar góðra hugmynda takmarkist ekki við Austurland.
Skýringar við stefnu um umhverfi nýsköpunar
Nýsköpunarstefna Íslands miðar að samfélagi sem styður við nýsköpun sem grundvöll menningarlegra og efnahagslegra lífsgæða.16 Stefnan skilgreinir leiðir að markmiðinu, en þær geta átt við um landshluta, sem og landið allt og tekur svæðisskipulagið mið af þeim.
Stuðla þarf að jákvæðu hugarfari til nýsköpunar á öllum sviðum samfélags. Hampa þarf og halda á lofti góðum fyrirmyndum þannig að virðing og skilningur á sprotastarfsemi aukist, sem og meðvitund um óvissu og áhættu í nýsköpunarferlinu.
Auka þarf fjármagn sem varið er í vísindarannsóknir og tækniþróun, jafnt í sprota- og nýsköpunarfyrirtæki. Sérstaklega þarf að huga að fjármagni fyrir fyrstu stig vaxtar og aðgengi að fjármagni sem tekur tillit til aðstæðna og miðar við að koma með úrlausnir fyrir svæðið.
Bæta þarf aðgengi og stækka markaði nýsköpunarfyrirtækja út fyrir landsteinana. Með stærri markaði fjölgar möguleikum til fjármögnunar og afurðir eru seljanlegri. Alþjóðlegt tengslanet er grunnur í þessu samhengi.
Bæta þarf umgjörð stuðningsstofnana og einfalda leikreglur, t.d. í tengslum við stofnun og rekstur fyrirtækja, til að auka samkeppnishæfni nýsköpunar.
Styrkja þarf mannauð svo að nýsköpunarumhverfi blómstri. Virða þarf almenn lífsgæði, velferð og öryggi. Einnig þarf að stuðla að blómlegu menningarlífi og mannvænlegu samfélagi sem eftirsóknarvert er að vera hluti af og laðar til sín hæfileikaríkt starfsfólk hvaðanæva úr heiminum.