3.3 Landslag og staðir

Þekking og skilningur á þýðingu landslagssérkenna og -gæða Austurlands eykst. Vatnajökulsþjóðgarður verður sterkur aflvaki í atvinnulífi og hálendið nýtt í auknum mæli í ferðaþjónustu. Mannvirki falla vel að landslagi og metnaður verður lagður í hönnun þeirra sem og alla aðra landslags- og umhverfishönnun, t.a.m. í almenningsrýmum þéttbýlisstaða.

É.  Stefna um landslagsgerðir og verndarsvæði

É.1 Þekking á landslagssérkennum, -heildum og -gæðum Austurlands aukist, sem og skilningur á þýðingu þeirra
fyrir lífríki, lýðheilsu, búsetugæði og atvinnulíf.

Unnin verði landslagsgreining fyrir Austurland með hliðsjón af flokkunar­verkefni og leiðbein­ing­um Skipulagsstofnunar um lands­lags­gerðir á landsvísu og með það í huga að hún geti nýst við:

  • Stefnumótun um landnotkun og mannvirkjagerð í aðal­skipulagi, þ.m.t. stefnu um óbyggð víðerni og nýtingu vind­orku og annarra orkulinda.
  • Mótun deiliskipulags fyrir afmörkuð svæði.
  • Umhverfismat áætlana og framkvæmda.
  • Landshlutaáætlun í skógrækt og skógræktaráætlanir.
  • Þróun útivistarmöguleika og afþreyingar á sviði ferða­þjónustu.
  • Þróun svæðismarks (e. regional brand) landshlutans og staðarmarks fyrir einstaka staði innan hans (e. place brand) sem aftur nýtist í markaðssetningu vara á svæðinu og til að laða að íbúa, fyrirtæki og ferðamenn.

É.2 Verðmætt landslag varðveitist og landslagsgæði aukist.

Framangreindri greiningu og skipulags- og áætlanagerð verði beitt til að verðmætt landslag varðveitist og landslagsgæði aukist. Hugað verði að verndun jarðminja jafnt sem menningarminja.

Við skipulag frístundabyggðar og annarrar nýrrar byggðar í dreifbýli verði leitast við að skerða ekki mikilvæg eða viðkvæm svæði.

Við nýtingu jarðefna verði hugað að landslagssjónarmiðum og land mótað með viðeigandi hætti að efnisnámi loknu.

Stuðlað verði að auknum rannsókn­um á jarðfræði Austurlands og miðlun upplýsinga um hana.

Landslagsgerðir Austurlands.58

É.3 Vatnajökulsþjóðgarður og önnur friðlýst svæði eflist sem aflvakar í ferðaþjónustu og störf­um þeim tengdum í landshlutanum fjölgi.

Unnið verði að því að efla sam­vinnu sveitarfélaga við þjóðgarð og Umhverfisstofnun um skipulag svæðanna, hagnýtingu tækifæra  og uppbyggingu innviða í þágu náttúruverndar, útivistar og ferðaþjónustu.

Stjórnsýsla Vatnajökulsþjóðgarðs verði vistuð á Austurlandi.

É.4 Hálendissvæði Austurlands nýtist í auknum mæli sem auðlind í ferðaþjónustu.

Unnið verði með náttúru- og menningararf  á hálendi Austur­lands sem auðlind í ferða­þjónustu og stutt verði við samstarf ferða­þjónustuaðila um hagnýtingu auðlindarinnar.

É.5 Hálendissvæði Austurlands haldi sérkennum sínum.

Sérkennum og náttúrugæðum hálendisins verði viðhaldið og tekið tillit til landslagsheilda, menn­ingar­minja og upplifunarmöguleika við skipulag, land­nýtingu og mann­virkjagerð.

É.6 Svæði sem teljast verðmæt á svæðis-, lands- eða heimsvísu vegna náttúrufars og/eða landslags varðveitist sem best.

Staðið verði vörð um votlendi sem hafa alþjóðlegt gildi og hafa verið samþykkt á skrá Ramsar­samningsins, sem og svæði sem hafa verið skráð sem mikilvæg fuglasvæði samkvæmt viðmiðum Alþjóðlegu fugla­verndarsamtakanna (BirdLife International).

Friðlýsingu samkvæmt lögum um náttúruvernd og lögum um minjavernd, eða hverfisvernd aðalskipulags, verði beitt eftir aðstæðum, til að vernda svæði sem þykja verðmæt.

Verndarsvæði á Austurlandi árið 2022.

Skýringar við stefnu um landslagsgerðir og verndarsvæði

Landslag sem auðlind

Hugtakið landslag nær til marg­víslegra þátta náttúru, menningar og skynjunar sem til samans skapa upplifun af tilteknu svæði eða stað. Upplifunin er hluti af sjálfsmynd og vellíðan íbúa, ásamt því að hafa áhrif á búsetugæði, aðdráttar­afl og ímynd staðar eða svæðis. Landslag er þannig auðlind sem nýtist við að laða að ferðafólk, fyrir­tæki og nýja íbúa.

Breytingar á landslagi verða bæði vegna náttúrulegra ferla og mann­­legra athafna. Skipulagsáætlanir og umhverfis­mat áætlana og fram­kvæmda gegna mikilvægu hlutverki við að stuðla að því að landslagsbreytingar verði sem jákvæðastar fyrir náttúru og samfélag, t.d. með því að setja landnotkunar­ákvæði, skilgreina verndarsvæði og tryggja vandaðan undirbúning mann­virkja­gerðar.

Menningar- og búsetulandslag telst til menningarminja samkvæmt lögum um þær og í Landslagssamningi Evrópu59 sem tók gildi á Íslandi árið 2020 er lögð áhersla á að landslagssjónarmið séu tvinnuð inn í stefnu á öllum sviðum samfélags og að unnið sé að því að auka vitund um gildi og gæði  landslags, m.a. með landslagsgreiningu. Þeim áherslum er fylgt eftir í  tillögu Skipulags­stofnunar að viðauka við lands­skipu­lagsstefnu sem kynnt var árið 2020.60 Samsvarandi tillaga að þings­ályktun var lögð fram á Alþingi í apríl 2021 en hefur ekki verið afgreidd.61

Hugtakið landslag nær til margvíslegra þátta, náttúrufarslegra og menningarlegra, sem fólk skynjar með óíkum hætti.62

Landslagsgreining

Skipulagsstofnun hefur látið vinna flokk­unarkerfi fyrir landslagsgerðir á Íslandi þar sem hver gerð er skilgreind út frá landformum, landhæð, yfirborði lands, landnýtingu og sjónrænum eiginleikum. Tilgangur kortlagningar­innar er að leggja til grunnupplýsingar sem litið verði til við skipulagsgerð og nánari framtíðarkortlagningu lands­lagsheilda.63

Framangreind flokkun dregur fram að á Austurlandi er mikil fjölbreytni í landslagi  og að þar er að finna lands­lagsgerðir sem eru fágætar á lands­vísu og veita landshlutanum því ákveðna sérstöðu.

Frekari staðbundin greining getur gefið enn betri grunn fyrir stefnu­mótun um verndun og mótun lands­lags, deiliskipulags- og mann­virkja­gerð. Þá getur hún nýst við frekari þróun ferða­þjónustu sem byggir á sérstöðu svæðis­ins.

Auk landslagsgreiningar getur flokkun vistgerða og fornleifaskráning bætt grundvöll fyrir mat á verndargildi og ákvarðanir um verndun eða friðlýsingu svæða.

Landslagsgerðir á Austurlandi og þau önnur svæði á Íslandi þar sem þær er að finna.

Friðlýst svæði og önnur verndar­svæði

Náttúruverndarsvæði skiptast í:

  • Friðlýst svæði og afmörkuð
    búsvæði friðaðra tegunda.
  • Svæði og náttúrumyndanir á
    B- og C-hluta náttúruminjaskrár.
  • Afmörkuð svæði á landi og sjó sem njóta verndar samkvæmt öðrum lögum vegna náttúru eða
    landslags.64

Ákvörðun um verndun svæða byggir á mati á verndargildi náttúrufars, lands­lags, sögu eða minja. Í því mati er byggt á viðurkenndum viðmiðum og horft til sérstöðu á svæðisvísu, landsvísu eða heimsvísu.65

Austurland státar af því að eiga hlut í Vatnajökulsþjóðgarði sem er á Heimsminjaskrá UNESCO.66 Þjóðgarðurinn dregur árlega að sér fjölda gesta og í honum liggja enn mikil sóknarfæri í ferðaþjónustu á Austurlandi. Á vegum þjóðgarðsins er rekin gestastofa í Fljótsdal, Snæfellsstofa, sem er mikilvægt akkeri náttúruverndar og ferðaþjónustu í landshlutanum.

Önnur friðlýst svæði í landshlutanum eru ýmist friðlönd, fólkvangar, lands­lags­verndarsvæði, náttúruvætti eða vernduð búsvæði, auk verndarsvæðis vatnasviðs Jökulsár á Fjöllum sem er friðlýst gagnvart orkuvinnslu. Svæðin eru þessi:

Friðlönd

  • Kringilsárrani
  • Hólmanes
  • Skrúður

Fólkvangar

  • Álfaborg
  • Fólkvangur Neskaupstaðar
  • Hólmanes
  • Teigarhorn

Landslagsverndarsvæði

  • Gerpissvæðið
  • Svæði norðan Dyrfjalla

Náttúruvætti

  • Stórurð
  • Helgustaðanáma
  • Teigarhorn
  • Blábjörg á Berufjarðarströnd

Búsvæði

  • Hálsar í Djúpavogshreppi – búsvæði tjarnaklukku
Friðlýst svæði á Austurlandi árið 2022.

F.  Stefna um staðarmótun

F.1 Falleg landslags- og mann­ virkjahönnun einkenni áfanga­staði ferðamanna.

Unnar verði leiðbeiningar fyrir hönnun áfangastaða í lands­hlutanum til að stuðla að auknum gæðum og öryggi.

F.2 Miðbæir og önnur almenn­­­ings­rými þéttbýlis­staðanna  fegrist.

Gatnahönnun og landslagsmótun verði beitt til að skapa aðlaðandi umhverfi og umgjörð um mannlíf.

Gróður verði aukinn til að fegra og bæta umhverfi, skapa aðlaðandi og áhugaverða umgjörð um hreyfingu og útiveru, um leið og lagt er af  mörkum til loftslagsmála og
viðhalds líffræðilegs fjölbreytileika.

F.3 Mannvirki falli vel að landslagi.

Staðarval og hönnun mannvirkja í þéttbýli og dreifbýli taki mið af landslagi, kennileitum, sjónlínum, útsýni og þeirri byggð sem fyrir er. Sérstaklega verði vandað til
hönnunar bygginga og annarra mannvirkja sem mynda ný kenni­leiti.

Skýringar við stefnu um staðarmótun

Mótun staða og aðlögun að landslagi

Við þróun þéttbýlis og dreifbýlis, þ.m.t. áfangastaða ferðamanna, er mikilvægt að skilgreina sérkenni, ímynd og sérstöðu staða og stuðla þannig að eftirminnilegri upplifun íbúa og gesta.67

Mannvirki í dreifbýli ættu að taka mið af byggingarhefð, landslagi og stað­háttum, s.s. kennileitum, sjónlínum og útsýni. Forðast ætti að reisa mannvirki að óþörfu á svæðum sem eru einstök og verðmæt vegna landslagssérkenna eða vistgerða. Frístundabyggð ætti að vera vel afmörkuð og samfelld til þess að koma í veg fyrir skerðingu á viðkvæmum svæðum og landslagsgæðum.68 Með skilgreindum ferðaleiðum og vandaðri mannvirkjagerð við ferðamannastaði er hægt að beina umferð eftir tilteknum leiðum og þannig vernda viðkvæma náttúru fyrir raski.

Leitast ætti við að haga skipulagi byggðar og landnotkunar í þéttbýli þannig að landslagseinkenni séu varðveitt og að hönnun byggðar og bæjarrýma efli þau gæði sem felast í landslagi og náttúrulegu umhverfi. Tryggja ætti gott aðgengi fyrir alla ferða­máta að ósnortinni náttúru sem víða má finna á Austurlandi og hvetur til útiveru, hreyfingar og náttúru­upplifunar.69

Vandaða byggingarlist má sjá víða á Austurlandi og er hönnun Snæfellsstofu gott dæmi en hún er fyrsta vistvottaða bygging landsins.

G.  Stefna um minjar og sögu

G.1 Verðmætar menningarminjar varðveitist.

Staðið verði vörð um verð­mætan byggingararf og aðrar menningar­minjar.

Unnið verði að skráningu fornleifa og mati á verndargildi, með for­gang á svæði sem kunna að raskast.

G.2 Saga og menningararfur nýtist í auknum mæli.

Gögn um fornleifar, sögustaði og aðrar menningarminjar verði gerð sem aðgengilegust. Tekið verði tillit til þeirra við landnotkun, mannvirkjagerð og nýtingu þeirra við vöruþróun í ferðaþjónustu og öðrum greinum.

Lögð verði áhersla á að draga fram og kynna sögur og sögustaði sem mynda söguþræði  landshlutans og stuðla að nýtingu þeirra við vöruþróun og markaðssetningu í ferðaþjónustu og öðrum greinum. Söguþræðir geta t.d. snúist um sögulegt efni eins og landnámsmenn, heiðarbýli, klaustur, norsku byggingarnar og áhrif erlendra sjómanna, en einnig um nýrri sögur og staði sem lýsa atvinnusögu og nútímamenningu landshlutans.

Friðlýstar fornminjar og friðlýst hús árið 2022 og sögustaðir Íslendingasagna.72

Skýringar við stefnu um minjar og sögu

Saga Austurlands er, líkt og landslag, hluti af sjálfsmynd íbúa um leið og hún er auðlind sem hægt er að nýta við lands­lagsmótun, vöruþróun og markaðs­setningu svæðis og einstakra atvinnugreina eða vara.

Góð og aðgengileg gögn um sögu og minjar eru mikilvæg til að þessi auðlind nýtist sem skyldi. Því er örnefna- og fornleifaskráning mikilvæg sem og fornleifauppgröftur og aðrar rannsóknir á minjum og sögu.

Með því að huga að sögulegu samhengi við þróun byggðar og nýta menningar­arfinn til að draga fram sérkenni lands­lags, má styrkja rætur samfélags og staðaranda svæðisins. Sagan verður lifandi og sýnileg.

Í þeim tilgangi að gera söguna sýnilega er einnig mikilvægt að söfn séu í stakk búin að geta varðveitt og sýnt forn­minjar sem finnast í landshlutanum.

Til verndar menningararfi þarf að fyrirbyggja að álag valdi raski eða skemmd­um. Einnig þarf að huga að því að lagfæra spjöll sem orðið hafa. Þá þarf leyfi Minjastofnunar Íslands ef hrófla á við fornleifum en stofnunin getur jafnframt leiðbeint um hvers konar hagnýtingu menningarminja.

Á Djúpavogi hefur byggðin við voginn70 verið skilgreind sem verndarsvæði í byggð á grundvelli samnefndra laga.71 Þar er unnið að frekari verndun byggðarheilda og horfa mætti til fleiri staða á Austurlandi í því tilliti.

  • 58 Unnið út frá skýrslunni Landslag á Íslandi. Útg. Skipulagsstofnun 2020.
  • 59 Landslagssamningur Evrópu.
  • 60 Landsskipulagsstefna.
  • 61 Tillaga til þingsályktunar um endurskoðaða landsskipulagsstefnu 2015–2026.
  • 62 Mynd þýdd og staðfærð úr: Christine Tudor, 2014. An approach to Landscape Character Assessment. Sbr. einnig mynd í tilllögu Skipulagsstofnun 2021 að viðauka við Landsskipulagsstefnu 2015–2026.
  • 63 Landslag á Íslandi.
  • 64 Lög um náttúruvernd nr. 60/2013.
  • 65 Náttúrufræðistofnun Íslands, náttúruminjaskrá. Minjastofnun Íslands, lög um menningarminjar.
  • 66 Vatnajökulsþjóðgarður.
  • 67 Skipulag og ferðamál - hugmyndahefti. Skipulagsstofnun.
  • 68 Landsskipulagsstefna 2105-2026.
  • 69 Tillaga að viðauka við Landsskipulagsstefnu.
  • 70 Djúpivogur - Verndarsvæðið við voginn.
  • 71 Lög um verndarsvæði í byggð nr. 87/2015.
  • 72 Minjastofnun Íslands og gögn Ferðamálastofu. Sjá vefsjá svæðisskipulagsverkefnis. Kortið gefur ekki tæmandi mynd af minjum á svæðinu.