3.2 Hnattræn og staðbundin vistkerf
Kolefnishlutleysi verður náð á sem flestum sviðum umhverfis, atvinnulífs og samfélags, grænir innviðir styrktir og vistkerfi haldast heilbrigð og fjölbreytt.
D. Stefna um loftslagsmál
D.1 Kolefnishlutleysi náist sem fyrst á sem flestum sviðum umhverfis, atvinnulífs og samfélags.
Við aðalskipulagsgerð verði leitast við að haga landnotkun, byggðamynstri og samgöngum þannig að dregið sé úr losun gróðurhúsalofttegunda og binding aukin.
Við aðal- og deiliskipulagsgerð og hönnun almenningsrýma verði búið vel að virkum ferðamátum og almenningssamgöngum.
Við aðal- og deiliskipulagsgerð og framkvæmdir verði staðið vörð um jarðveg og gróður sem nú þegar geymir umtalsverðar kolefnisbirgðir.
Stuðlað verði að orkuskiptum með því að veita svigrúm í skipulagi og vinna að uppbyggingu innviða eins og hleðslustöðva fyrir rafbíla og eldsneytisstöðva fyrir metan, vetni og annað loftslagsvænt eldsneyti, sem og innviða fyrir rafvæðingu hafna.
Hvatt verði til aukinnar bindingar kolefnis, s.s. með ræktun skóga og annars gróðurs, landgræðslu, verndun votlendis og endurheimt þess þar sem hentar m.t.t. annarrar nýtingar.
Hvatt verði til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda í landbúnaði, s.s. með bættri nýtingu og meðhöndlun áburðar og bættrar fóðrunar búfjár til að draga úr iðragerjun.
Unnið verði að því að auka endurvinnslu og endurnýtingu og draga úr urðun úrgangs, einkum lífræns.
Stofnanir og stjórnsýsla sveitarfélaganna taki tillit til loftslagsáhrifa og annarra umhverfissjónarmiða við öll innkaup og mannvirkjagerð.
Fyrirtæki verði hvött til að loftslagsvæns reksturs og vistvænnar mannvirkjagerðar.
Íbúar verði hvattir til loftslagsvæns lífsstíls, m.t.t. ferðamáta, neysluvenja og matarsóunar.
D.2 Þanþol gagnvart loftslagsbreytingum aukist.
Við aðal- og deiliskipulagsgerð, landnýtingu og undirbúning framkvæmda verði tekið tillit til áskorana sem fylgja loftslagsbreytingum til langs tíma litið og skapa þannig skilyrði fyrir loftslagsþolinni þróun. Hér er t.d. átt við viðbrögð við og varnir gegn hækkun sjávarborðs, ágangi sjávar, vatnsflóð, flóðbylgjum, hörfun jökla,
bráðnun sífrera, skriðuföllum, úrkomuákefð, þurrkum, ofviðri og gróðureldum.
D.3 Grænir innviðir styrkist í þéttbýli.
Við aðal- og deiliskipulagsgerð verði hugað að því hvernig nota má græna innviði, s.s. skógarreiti, garða, götutré, blágrænar/sjálfbærar ofanvatnslausnir til að milda og takast á við áhrif loftslagsbreytinga á byggð.
Skýringar við stefnu um loftslagsmál
Aðlögun að loftslagsbreytingum
Segja má að Austfirðingar hafi orðið fyrir beinum áhrifum af afleiðingum loftslagsbreytinga þegar aurskriður féllu á Seyðisfirði í desember 2020 og tóku með sér hluta af eldri byggð bæjarins í kjölfar óvenju mikilla rigninga. Í byrjun árs 2022 urðu talsverðar skemmdir á sjóvarnargörðum á Vopnafirði í óveðri sem gekk yfir Austurland. Þessir atburðir sýna fram á mikilvægi þess að kortleggja náttúruvá af völdum loftslagsbreytinga og aðlaga byggð og mannvirki í samræmi við það, til þess að auka þanþol og viðnámsþrótt gagnvart breytingum. Fyrir utan skriðuföll, snjóflóð og ágang sjávar vegna ofsaveðra og hækkunar sjávarborðs er helsta hættan á Austurlandi líklega vegna mögulegra gróðurelda og vatnsflóða í byggð.
Mikilvægt er að binda jarðveg með gróðri eða einhvers konar varnargörðum til að koma í veg fyrir ofanflóð og hafa Samtök sveitarfélaga á Austurlandi kallað eftir að ríkið heimili fjármögnun fyrir uppbyggingu ofanflóðavarna á svæðinu.42 Helstu aðgerðir til að sporna við ágangi sjávar er gerð varnargarða en einnig er mikilvægt að tryggja í skipulagi að landhæð nýrrar byggðar sé í hæfilegri hæð yfir sjávarmáli. Vegna mögulegra vatnsflóða í byggð er mikilvægt að auka gegndræpi með innleiðingu blágrænna ofanvatnslausna þar sem regnvatni og snjóbráð er veitt í gegndræpt yfirborð í stað regnvatnslagna neðanjarðar. Grænu geirarnir hægja á vatnsstreymi og hreinsa mengun úr ofanvatni áður en það rennur í viðtaka, s.s. sjó eða votlendi.43
Landnotkun og landbúnaður
Á Íslandi er stór hluti losunar gróðurhúsalofttegunda vegna landnotkunar.44 Með endurheimt votlendis eru vistkerfi endurheimt og losun koltvísýrings hættir. Því er mikilvægt að kortleggja framræst landsvæði sem ekki eru í notkun og getur hentað til endurheimtar votlendis.45 Einnig er mikilvægt að nýta uppbyggingarland vel og dreifa ekki um of úr þéttbýlisstöðum.
Nokkur hluti af losun gróðurhúsalofttegunda á Íslandi kemur frá landbúnaði, fyrst og fremst vegna metanlosunar jórturdýra. Mögulegt er að minnka losun frá landnotkun og landbúnaði, t.d. með lífrænni ræktun, aukinni akuryrkju á óframræstu landi, meiri skógrækt, endurheimt votlendis, úrvinnslu metans úr mykju og vistvænum áburði og fóðri. Skógrækt er hvergi meiri á landinu en á Austurlandi og mikilvægt að halda því starfi áfram til þess að binda kolefni.46
Orkuskipti í samgöngum og breyttar ferðavenjur
Á Austurlandi eru margir byggðakjarnar dreifðir um stórt landsvæði og eru vegasamgöngur stór losunarþáttur á svæðinu. Því er mikilvægt að stuðla að orkuskiptum í samgöngum með bættu aðgengi að hraðhleðslustöðvum og öðrum vistvænum orkugjöfum. Ekki síður er mikilvægt að stuðla að breyttum ferðavenjum með bættum almenningssamgöngum og góðum göngu- og hjólatengingum innan og á milli byggðakjarna þar sem raunhæft er að hjóla eða fara á minni rafknúnum farartækjum á milli.47 Síðast en ekki síst er hægt að draga mjög úr losun frá samgöngum með því að minnka ferðaþörf, t.d. með því að gera fólki kleift að vinna í fjarvinnu og styðja við netverslun. Auk þess er mikilvægt að vinna að rafvæðingu hafna og iðnaðar eins og kostur er.
Úrgangur
Hringrásarhagkerfið gengur út á flokkun, endurnýtingu á því sem hægt er að nýta, endurvinnslu á því sem ekki er hægt að nota áfram og moltugerð fyrir lífrænar leifar, en urðun á lífrænum úrgangi verður óheimil frá 1. janúar 2023.48 Hringrásarhagkerfið miðar að því að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og minnka land undir landfyllingar. Samvinna sveitarfélaga á Austurlandi í úrgangsmálum er mikilvæg í þessu tilliti, bæði hvað varðar að draga úr úrgangsmyndun og stuðla að flokkun og endurnýtingu á svæðinu. Aukin fræðsla til einstaklinga og fyrirtækja um mikilvægi endurnýtingar og endurvinnslu skiptir einnig máli.
Þá geta sveitarfélögin verið fyrirmyndir hvað varðar vistvæn innkaup og mannvirkjagerð, t.d. með innleiðingu græns bókhalds, með því að draga úr neikvæðum umhverfisáhrifum af starfsemi sinni og efla umhverfisvitund starfsmanna. Önnur leið er að nýta þær byggingar sem fyrir eru eins og kostur er í stað þess að rífa og byggja nýjar. Notkun vistvænna byggingarefna skiptir einnig máli í þessu samhengi.49
E. Stefna um vistkerfi og líffræðilega fjölbreytni
E.1 Vistkerfi á landi, í vatni og sjó haldist heilbrigð og fjölbreytni vistgerða viðhaldist eða aukist.
Við nýtingu auðlinda, skipulag og mannvirkjagerð verði leitast við að viðhalda heilbrigði vistkerfa þannig að þau geti veitt viðnám þegar áföll dynja yfir.
Unnið verði að því að endurheimta vistgerðir sem hafa raskast.
Staðið verði vörð um vistgerðir sem teljast hafa mikið verndargildi, s.s. vegna fágætis, tegundaauðgis, grósku og/eða kolefnisforða.50
Stuðlað verði að rannsóknum á vistgerðum Austurlands og miðlun upplýsinga um þær.
E.2 Gróður styrkist og jarðvegseyðing stöðvist.
Unnið verði að því að stöðva rof, þ.m.t. landbrot af völdum fallvatna.51
Fylgst verði með nýtingu gróðurs og komið í veg fyrir ofnýtingu.
Skýringar við stefnu um vistkerfi og líffræðilega fjölbreytni
Vistgerðir
Náttúrufræðistofnun Íslands hefur sett fram flokkunarkerfi fyrir vistgerðir sem lýsa eiginleikum svæðiseiningar hvað varðar gróður, dýralíf, jarðveg og loftslag. Flokkaðar og skilgreindar eru vistgerðir á landi, í ferskvatni og í fjöru. Með flokkun lands í vistgerðir fæst yfirlit yfir sérstæðar og sjaldgæfar vistgerðir, einkenni þeirra og útbreiðslu.52
Flokkun lands í vistgerðir er mikilvæg við gerð skipulagsáætlana, mat á umhverfisáhrifum áætlana og framkvæmda og við ákvarðanir um landnotkun og verndarsvæði.53
Landgræðsla og jarðvegsvernd
Markmið laga um landgræðslu miða að því að auka kolefnisbindingu með endurheimt vistkerfa. Einnig skal byggja upp og endurheimta vistkerfi sem hafa raskast. Auk þess er mikilvægt að stuðla að auknum viðnámsþrótti og þanþoli vistkerfa gagnvart náttúrulegum áföllum og náttúruvá.54 Verkefnið Grólind um stöðu gróður- og jarðvegsauðlinda á Íslandi er mikilvægt verkfæri í þessu tilliti.55
Vötn, ár og sjór
Vatn er auðlind sem mikilvægt er að umgangast og nýta á ábyrgan hátt. Viðhalda þarf líffræðilegri fjölbreytni og náttúrulegu ástandi vistkerfa ferskvatns og strandsjávar og tryggja gæði grunnvatns.56