7.1 Samstarf og framkvæmda- áætlanir

Svo hægt verði að ná markmiðum svæðisskipulagsins verða sveitarfélög, samtök, fyrirtæki, félög og stofnanir á Austurlandi að eiga í nánu samstarfi. Með vel undirbúnum ákvörðunum um úrlausn sameiginlegra hagsmunamála Austurlands næst sá árangur sem stefnt er að í umhverfis-, atvinnu-, samfélags- og menningarmálum.

Svæðisskipulagsnefnd, í umboði sveitar­stjórna, fylgist með framfylgd skipulagsins og annast breytingar á því sbr. 9. grein skipulagslaga. Austurbrú ses. er falin umsýsla nefndarinnar, samkvæmt samningi við Samband sveitarfélaga á Austurlandi og felur nefndin stofnuninni verkefni eftir atvikum til að ná fram markmiðum skipulagsins. Það skal þó tekið fram að nefndinni er frjálst að vísa verkefnum annað. Verkefnastjóri Austurbrúar er starfsmaður nefndarinnar.

Unnin verður aðgerðaáætlun þar sem dregin verða saman þau markmið sem kalla á framfylgd í gegnum aðal- og deiliskipulag og ábyrgðaraðilar skil­greindir fyrir önnur markmið, þ.m.t. þau sem kalla á framfylgd í gegnum áætlanir ríkisins.

Sveitarfélög og stoðstofnanir á þeirra vegum verða að gæta að innra samræmi skipulagsáætlana þannig að t.a.m. aðalskipulag og deiliskipulag sé í samræmi við stefnu svæðisskipulags. Aðgerða­áætlanir sveitarfélaganna þurfa einnig að taka mið af svæðisskipulaginu og markmiðum þess í sinni forgangsröðun. Með hugtakinu aðgerðaáætlunum er til dæmis, en ekki eingöngu, átt við:

  • Áfangastaðaáætlun
  • Sóknaráætlun Austurlands
  • Áhersluverkefni SSA
  • Áherslur Uppbyggingarsjóðs
    Austurlands
  • Starfsáætlun Austurbrúar
  • Verkefnaáætlanir fyrir einstök
    verkefni
  • Fjárhagsáætlanir sveitarfélaga
  • Meirihlutasáttmála bæjar- og
    sveitastjórna

Svæðisskipulagsnefndin skal benda á ef misræmis gætir á milli stefn­unnar sem lýst er í skipulaginu og annarra áætlana. Sveitarfélög á Austurlandi og stoðstofnanir þeirra skulu hafa innleitt stefnuna í aðalskipulagsáætlanir og aðrar aðgerðaáætlanir innan 24 mánaða frá samþykki þess. Við verulegar breytingar á t.d. aðalskipulagi, sóknaráætlun, starfsáætlun Austurbrúar, sem og við gerð annarra opin­berra aðgerðar­áætlana, skal leita umsagnar svæðisskipulags­nefndar um það hvort þær samræmast stefnu svæðis­skipulagsins.

Í tillögum að breytingum á aðal­skipu­lagi skal í öllum tilvikum gera grein fyrir samræmi við svæðisskipu­lag og þegar breytingarnar teljast verulegar og varða svæðisbundna hagsmuni  skal leita umsagnar svæðisskipulags­nefndar um samræmi við svæðis­skipulagið. Mótaðar verða leiðbeiningar fyrir sveitar­stjórnir og svæðisskipulagsnefnd hvað þetta varðar.