2.2 Framtíðarsýn
Svona verður Austurland árið 2044:
Á Austurlandi er samheldið fjölmenningarsamfélag með lífsgæði í forgrunni.
Litríkt listalíf, ríkur menningararfur og áhugaverðir staðir á fjörðum, héraði og hálendi veita gnótt tækifæra til að upplifa sannkölluð ævintýri.
Öflugt og fjölbreytt atvinnulíf byggir á sjálfbærri nýtingu auðlinda og þekkingu og sköpunarkrafti íbúa.
Sett eru meginmarkmið fyrir hvert svið svæðisskipulagsins sem vísa veginn að framtíðarsýn Austurlands.
- Góð heimkynni: Umhverfið, hið manngerða sem og náttúrulega, verður heilnæmt, vistvænt og öruggt. Það verður gott að búa á Austurlandi og eftirsóknarvert að sækja það heim.
- Svæði sóknarfæra: Atvinnulífið nýtir auðlindir svæðisins á sjálfbæran hátt í sátt við samfélagið. Nýsköpun, þekking og rannsóknir verða æ styrkari grundvöllur atvinnusköpunar og framþróunar.
- Sterkt samfélag: Samfélagið er samheldið og virkt þekkingarsamfélag með ríkan og skapandi mannauð og góðar aðstæður til náms og heilbrigðis.
- Ævintýri líkast: Menningarlífið er blómlegt og fjölbreyttir möguleikar eru til að stunda útivist og íþróttir, sem gerir landshlutann að spennandi stað til að búa á, starfa og heimsækja.