6.2 Listir og menning
Hlúð verður að staðaranda og gróskumiklu menningarlífi og það nýtt til atvinnusköpunar. Rík áhersla verður lögð á aðlaðandi og lifandi umhverfi í bæjum sem bera blómstrandi menningunni vitni, menningarstofnanir og menningarhátíðir verða efldar.
Ý. Stefna um menningarlíf
Ý.1 Gróskumikið og fjölbreytt menningarlíf vaxi og dafni.
Lögð verði áhersla á að skapa möguleika fyrir íbúa og gesti til að njóta og taka þátt í hvers konar menningarstarfsemi. Sérstaklega verði ungt fólk og íbúar af erlendum uppruna hvattir til þátttöku og að miðla sinni menningu.
Lögð verði áhersla á listkennslu, menningarlæsi og safnafræðslu á öllum skólastigum og að bjóða upp á list- og handverksnámskeið fyrir almenning.
Vel verði hlúð að listamönnum búsettum á Austurlandi og þeir studdir og hvattir til að miðla af reynslu sinni og þekkingu.
Lögð verði áhersla á að greiða götu listamanna og annarra sem sækjast eftir því að starfa í heimabyggð.
Lögð verði áhersla á að viðhalda og styrkja öflugt tengslanet listafólks í og úr landshlutanum og tengsl þess við atvinnulíf.
Ý.2 Menningarstofnanir eflist.
Leitað verði leiða til að efla hlutverk menningarmiðstöðvanna þriggja sem eru skilgreindar í samningi um sóknaráætlun en þær eru Skaftfell, miðstöð myndlistar á Austurlandi, Menningarstofa Fjarðabyggðar og Menningarmiðstöð Fljótsdalshéraðs.
Stuðlað verði að eflingu annarra menningarstofnana, t.d. með aukinni samvinnu þeirra innan landshlutans, við aðrar miðstöðvar innanlands og erlendis og með sameiginlegri öflun fjármagns frá ríki, sveitarfélögum, sjóðum og fyrirtækjum.
Viðurkennd söfn á Austurlandi verði efld þannig að þau geti staðið vörð um menningararf svæðisins og sinnt af metnaði öllum grunnþáttum safnastarfs, þ.e. söfnun, varðveislu, skráningu, rannsóknum og miðlun.
Stuðlað verði að samvinnu á milli menningarstofnana og félagasamtaka í landshlutanum til eflingar tengsla við íbúa.
Ý.3 Menningararfur nýtist sem auðlind til atvinnusköpunar.
Unnið verði að því að gera gögn um menningararf Austurlands sem aðgengilegust til fræðslu, rannsókna og sem uppsprettu nýrra hugmynda í hvers konar skapandi greinum og ferðaþjónustu.
Stuðlað verði að menningarverkefnum sem draga fram eða efla áhugaverða þætti í menningararfleifð, t.d. handverk og vinnulag.
Stuðlað verði að rannsóknum á menningu og menningararfi Austurlands (sjá kafla G.2).
Stuðlað verði að menningartengdri ferðaþjónustu (sjá kafla 4.4).
Ý.4 Framboð á húsnæði og útirýmum til listsköpunar aukist.
Tekið verði saman yfirlit yfir rými og aðstöðu sem gæti nýst til hvers konar listsköpunar, með það að markmiði að miðla þeim upplýsingum til listamanna.
Lögð verði áhersla á það að skapa listnemum og ungu listafólki aðstöðu og möguleika til að starfa í heimabyggð á námstíma og eftir nám.
Stuðlað verði að því að gestavinnustofur verði í boði fyrir fræði- og listamenn.
Ý.5 Menningarhátíðir og menningarviðburðir landshlutans eflist.
Unnið verði áfram að þróun hátíða og viðburða fyrir börn og fullorðna á sviði menningar og lista.
Lögð verði áhersla á að hátíðir og viðburðir fari fram sem víðast um landshlutann og að með þeim verði m.a. hlúð að menningu, sögu og sérstöðu hvers samfélagskjarna.
Auðvelt verði fyrir bæði heimamenn og ferðamenn að kynna sér hvaða menningar- og listviðburðir eru í boði á hverjum tíma.
Hugað verði að aðgengi íbúa að menningarviðburðum við útfærslu almenningssamgangna.
Ý.6 Útilistaverkum fjölgi.
Hugað verði að möguleikum til að koma fyrir listaverkum í almenningsrýmum, s.s. í miðbæjum og almenningsgörðum eða á vel völdum stöðum í dreifbýli.
Haldin verði samkeppni um listaverk í völdum almenningsrýmum.
Skýringar við stefnu um menningarlíf
Austurland er þekkt fyrir blómlegt menningarlíf enda hefur verið lögð mikil áhersla á mikilvægi menningar fyrir búsetugæði og aðdráttarafl landshlutans. Öflugt menningarlíf opnar möguleika fyrir einstaklinga til virkrar þátttöku í samfélaginu, vinnur gegn félagslegri einangrun og örvar atvinnuþróun, þ.á.m. ferðaþjónustu.15
Í skólastarfi hefur verið lögð sérstök áhersla á þátttöku barna og unglinga í listsköpun, sem aftur getur eflt víðsýni og félagsfærni. Í boði er listmenntun og sköpun á framhaldsskólastigi og lögð er áhersla á list og menningu sem mikilvægan vettvang til að ná til og koma til móts við íbúa af ólíkum uppruna.16
Þrjár menningarmiðstöðvar eru í landshlutanum sem eru skilgreindar í samningi um sóknaráætlun; Skaftfell á Seyðisfirði, Menningarstofa Fjarðabyggðar og Menningarmiðstöð Fljótsdalshéraðs. Tónlistarmiðstöð Austurlands er starfrækt undir hatti Menningarstofu Fjarðabyggðar.Gunnarsstofnun að Skriðuklaustri í Fljótsdal er mikilvægt menningar- og fræðasetur með lifandi menningarstarfsemi árið um kring. Í Sköpunarmiðstöðinni á Stöðvarfirði fá listir og skapandi greinar að njóta sín í gömlu frystihúsi. Á Austurlandi er fjölbreytt safnaflóra. Þar má finna margvíslegar sýningar, setur, safnvísa og síðast en ekki síst fjögur söfn sem uppfyllt hafa ströng skilyrði Safnaráðs og starfa sem viðurkennd söfn samkvæmt safnalögum.
Allar þessar stofnanir, með viðurkenndu söfnin í broddi fylkingar, gegna mikilvægu hlutverki í austfirsku menningarlífi og þar með samfélagi. Söfnin varðveita menningararf svæðisins og er mikilvægt að húsnæði uppfylli kröfur til varðveislu minja. Söfnin rannsaka einnig menningararfinn og miðla niðurstöðunum til almennings með fjölbreyttum hætti. Söfnin eru fræðslustofnanir sem taka á móti skólahópum á öllum skólastigum og stuðla þannig að fjölbreytileika í kennslu og menntun barna og ungmenna. Söfnin eru samkomustaðir þar sem fólk kemur saman til að njóta, fræðast og sækja fjölbreytta viðburði. Þau eru einnig mikilvægir viðkomustaðir ferðafólks þar sem gestir fá innsýn inn í líf og sögu fólksins á svæðinu.17
Sveitarfélögin á Austurlandi hafa lagt áherslu á að fjölga menningartengdum verkefnum og störfum, nýta betur þá aðstöðu sem fyrir er og bæta miðlun upplýsinga um menningarstarf og menningararf Austurlands.18 Dregið hefur verið fram að samræma mætti kynningarefni og merkingar fyrir listaverk, byggingar, bókmenntir og sögu svæðisins. Þá þurfi að tryggja að nægt rými sé til fyrir uppbyggingu menningarstofnana.19
Sveitarfélögin hafa á undanförnum árum jafnframt lagt áherslu á að ríkisvaldið veiti auknu fjármagni til menningarmála á landsbyggðinni og bent á að jafnt aðgengi að listum og menningu sé ein af meginforsendum jákvæðrar íbúaþróunar.20
Til þess að undirstrika mikilvægi menningar og lista á svæðinu er mikilvægt að hið byggða umhverfi beri þess merki með varðveislu á sögulegri byggð og vönduðum arkitektúr. Auk þess geta útilistaverk glætt almenningsrými lífi, ekki síst ef um er að ræða gagnvirk listaverk sem ungir sem aldnir geta leikið sér að. Slíkt umhverfi ýtir undir mannlíf og staðaranda.21
Í menningarstefnu ríkisins og aðgerðaáætlun hennar eru skilgreind verkefni sem fylgja þarf eftir og hægt er að tengja svæðisbundin verkefni við. Það mætti gera með mótun menningarstefnu fyrir landshlutann í heild eða við endurskoðun menningarstefnu
einstakra sveitarfélaga, í ríku samráði við íbúa og aðila í menningarlífinu.22
Þ. Stefna um miðbæjarlíf
Þ.1 Aðalgötur og miðbæir Austurlands eflist sem þjónustu- og menningarmiðstöðvar með aðlaðandi, heilsueflandi og lifandi miðbæjarumhverfi.
Lögð verði áhersla á skýra afmörkun miðbæja með umhverfismótun, uppbyggingu á auðum lóðum, samræmdri gatnahönnun og aðlaðandi almenningsrýmum.
Hugað verði að góðri tengingu milli aðalgötu og hafnarsvæðis, þar sem það á við, tveggja aðalmiðstöðva menningar- og atvinnulífs bæjanna.
Hönnun almenningsrýma, s.s. aðalgatna og torga, ætti að taka mið af mismunandi ferðamátum, aðgengi fyrir alla og öryggi gangandi og hjólandi vegfarenda sem skapa mannlífið.
Uppbygging miðbæjanna taki mið af hæð og stærð þeirra bygginga sem fyrir eru.
Tryggt verði nægt framboð á hentugu verslunar- og þjónusturými við aðalgötu eða miðkjarna með lifandi starfsemi, búðarglugga og innganga á jarðhæðum.
Verslunarstarfsemi verði beint í miðbæ, fremur en í nýja verslunarkjarna fjarri miðbæ.
Unnið verði að því að auka gróður, setja götugögn og list í miðbæjarrými.
Forðast ætti uppbyggingu á verslun og þjónustu í útjaðri með plássfrekum bílastæðaplönum.
Þ.2 Unnið verði að því að styrkja staðaranda og sérhæfingu hvers miðbæjar/aðalgötu.
Unnið verði að uppbyggingu öflugra og lifandi miðbæja í stærstu þéttbýliskjörnunum þar sem hringvegurinn liggur í gegn en þar eru jafnframt stærstu bæirnir á svæðinu. Þeir þurfa að geta tekið á móti fjölda gesta og boðið upp á nauðsynlega verslun og þjónustu.
Dregin verði fram sérkenni hvers byggðarkjarna og unnið með ákveðin þemu í hönnun á almenningsrýmum, merkingum og markaðssetningu á miðbæjum, með sögulega eða menningarlega skírskotun.
Sögulegum byggingum og mannvirkjum verði vel viðhaldið og skoðað hvort tilefni sé til að skilgreina verndarsvæði í byggð.
Skýringar við stefnu um miðbæjarlíf
Vönduð landslags- og bæjarhönnun getur stutt við hlutverk miðbæja sem verslunar- og þjónustumiðstöðva, menningarmiðstöðva og viðkomustaða ferðafólks.
Miðbæir Austurlands liggja ýmist meðfram aðalgötum eða á þar til gerðu svæði í grennd þeirra. Um aðalgöturnar fara flestir íbúar daglega og gjarnan akandi, en með meiri gróðri í göturýminu, listaverkum, litlum torgum, görðum og öðrum áningarstöðum má styðja við virka ferðamáta og auka líkur á því að gestir og gangandi staldri við og styðji þannig við verslun og mannlíf á staðnum.23
Hver og einn austfirsku bæjanna hefur sína sögu og menningu sem hægt er að nýta við þróun miðbæjanna. Tækifæri er til að varðveita gamlar byggingar og önnur mannvirki með sögulega skírskotun sem vekja forvitni og skapa fjölbreytni í byggðinni. Skörð í húsaröðum miðbæjanna er hægt að nýta fyrir nýtt verslunar- og þjónustuhúsnæði í stað þess að beina því í jaðar bæjanna eða þar til gerða nýja verslunarkjarna.