• Góð heimkynni
 • Sterkt samfélag
 • Svæði sóknarfæra
 • Ævintýri líkast

Útgáfa markaðsefnis og rekstur vef- og samfélagsmiðla

 • Staða

  Hafið

 • Síðast uppfært

  08.01.2024

 • Framkvæmdaraðili

  Markaðsstofur landshlutanna

  Vopnafjarðarhreppur

  Fljótsdalshreppur

  Múlaþing

  Fjarðabyggð

  Austurbrú


Austurbrú á og rekur ferðavefinn VisitAusturland og samfélagsmiðla honum tengdum. Þá er prentað upplýsingaefni (s.s. áfangastaðakort af Austurlandi og auglýsingar í útgefnum ferðablöðum) útbúið hjá Austurbrú en stofnunin annast grafíska hönnun þess og skipuleggur dreifingu allt árið um kring. Áherslur í efnisvali eru breytilegar yfir árið. Í byrjun árs eru áherslur veturs og vors í forgrunni, í mars er lögð áhersla á framboð afþreyingar á sumrin og í byrjun ágúst hefst markaðssetning á vetrarferðaþjónustu.

Útgefið prentað efni og vefmiðlun á VisitAusturland-vefnum er heildstæðasta upplýsingagjöf um áfangastaðinn Austurland sem völ er á. Þarna má finna upplýsingar um allt það helsta sem áfangastaðurinn Austurland hefur upp á að bjóða og tilgangur þessara verkefna er skýr og í samræmi við meginstefnu svæðisskipulagsins: að Austurland verði heilsársáfangastaður sem höfði jafnt til heimamanna og gesta og að markaðssetning landshlutans hafi sérkenni Austurlands sem leiðarljós.

Áherslur árins 2024 beinast að vetrarferðaþjónustu og upplýsingagjöf um framboð afþreyingar á svo nefndum axlartímabilum (s.s. utan háannatíma yfir sumarið). Kapp verður lagt á að fjölga fylgjendum á samfélagsmiðlum og auka virkni með innsetningu efnis, bæði kostuðu sem og ókostuðu, t.d. birtingu á blogggreinum, ljósmyndum o.fl. Eins og alltaf er lögð áhersla á að upplýsingarnar séu réttar og framreiddar á aðgengilegan og einfaldan máta. Þá verður upplýsingum sérstaklega beint að ferðamönnum sem líklegir eru til að nýta sér flug EasyJet til Akureyrar.

Markmið útgáfuverkefna og reksturs vef- og samfélagsmiðla eru vel skilgreinanleg og mælanleg. Hægt er að sjá nákvæmega heimsóknafjölda á síður okkar og hvort fylgjendum fjölgi. Þá fylgjumst við jafnframt með upplýsingum um fjölda gistinátta á Austurlandi.