Samþykkt Svæðisskipulag Austurlands 2022-2044
Í gær, þann 12. október, undirrituðu bæjar- og sveitastjórar Austurlands og forstjóri Skipulagsstofnunar Svæðisskipulag Austurlands 2022-2044. Undirritunin fór fram í Reykjavík en viðstödd voru jafnframt framkvæmdastjóri Austurbrúar, formaður SSA, varaformaður svæðisskipulagsnefndar SSA og fulltrúi ráðgjafafyrirtækisins ALTA.
Vinna við svæðisskipulagið hefur staðið yfir síðan 2016 og því óhætt að segja að nokkur léttir hafi verið meðal viðstaddra en undirritunin fór fram í húsnæði Skipulagsstofnunar í Reykjavík. Fjöldi manns hefur komið að vinnu við svæðisskipulagsgerðina þótt mest vinna hafi farið fram innan svæðisskipulagsnefndar SSA sem fundað hefur stíft allra síðustu misseri og notið dyggrar aðstoðar ráðgjafafyrirtækisins ALTA sem sérhæfir sig í skipulagi og byggðamálum.
Svæðisskipulagið var samþykkt af svæðisskipulagsnefnd SSA og sveitarstjórnum á Austurlandi í september. Í kjölfarið var það sent til Skipulagsstofnunar til umsagnar og lauk þeirri yfirferð í síðustu viku. Það vildi svo til að allir bæjar- og sveitarstjórar Austurlands voru í Reykjavík í gær vegna árlegrar fjármálaráðstefnu sveitarfélaganna og því kjörið tækifæri til að undirrita Svæðisskipulag Austurlands 2022-2044.